Félagslegur fjármögnunarrammi
Undir félagslegan fjármögnunarramma, eða svokallaða rauða fjármögnun, fellur skuldabréfaútgáfa og aðrir fjármálagerningar, þar sem fjármunum er varið til að fjármagna eignir eða verkefni sem hafa jákvæð samfélagsleg áhrif, t.d. miðað við sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna.
Með aukinn áherslu á samfélagslega ábyrgð leita sífellt fleiri fjárfestar í vottaða fjárfestingarkosti á borð við rauð skuldabréf. Háskólinn í Reykjavík gaf í september 2021 út rauð skuldabréf að nafnverði 12 milljarðar króna til 40 ára.
Áhersla á sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna
Háskólinn í Reykjavík hefur sett saman félagslegan fjármögnunarramma, í samræmi við stefnu háskólans og sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna.
Samkvæmt rammanum falla gjaldgeng verkefni undir sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna númer 4, 10, 11 og 17. Það eru markmið um menntun fyrir alla, aukinn jöfnuð, sjálfbærar borgir og samfélög og samvinnu um markmiðin. Gjaldgeng verkefni skulu enn fremur stuðla að: aðgangi að nauðsynlegri þjónustu, svo sem menntun, félagshagfræðilegri framþróun og valdeflingu og húsnæði á viðráðanlegu verði.
Upplýsingagjöf
Alþjóðlega vottunarfyrirtækið S&P Global Ratings var fengið til þess að gera úttekt á félagslegum fjármögnunarramma HR. Í úttekt þeirra kemur fram að fyrirtækið telur að félagslegi fjármögunarramminn sé í samræmi við fjórar stoðir rauðrar fjármögnunar samkvæmt Social Bond Principles 2021 (SBP) og Social Loan Principles 2021 (SLP).
Í samræmi við félagslega fjármögnunarrammann mun háskólinn gefa út skýrslur árlega um ráðstöfun fjármuna sem aflað er undir félagslega fjármögnunarrammanum og áhrif þeirra á samfélagsleg verkefni. Skýrslur þar að lútandi verða aðgengilegar á vef HR.