Íþróttafræði
Hvað læri ég?
Í grunnnáminu í íþróttafræði lærir þú undirstöðuatriði þjálfunar, eins og lífeðlisfræði, hreyfingafræði og sálfræði. Þessa grunnþekkingu tekur þú svo með þér í framhaldsáfanga eins og þjálffræði og afkastamælingar, þar sem þú lærir að beita grunnhugtökunum bæði fræðilega sem og á vettvangi. Þú lærir einnig grunnfærni í kennslufræði og þarft reglulega að beita þeirri færni í raunverulegum aðstæðum.

Hvernig læri ég?
Það er mikið undir þér komið hvernig þú lærir. Mikið af kennsluefninu getur þú nálgast rafrænt. Svo eru fyrirlestrar, vinnustofur og verkefni til að hjálpa þér að ná tökum á efninu. HR leggur mikið uppúr því að þú fáir uppbyggjandi endurgjöf á verkefnin þín, ekki bara einkunn. Auk þess er mikið um verklega tíma þar sem fræðin eru sett í samhengi við raunveruleikann. Þú færð einnig tækifæri til að fara út á vettvanginn og afla þér enn meiri reynslu
Hvaða tækifæri hef ég til að vinna beint með afreksfólki í íþróttum?
Þú hefur einstakt tækifæri til að komast í návígi við margt fremsta íþróttafólk Íslands. Íþróttafræðideild HR er með samninga við fjölmörg íþróttasambönd hérlendis eins og til dæmis KSÍ, HSÍ, KKÍ og FSÍ. Samkvæmt samningunum sjá meistaranemar ásamt kennurum íþróttadeildarinnar að mestu um mælingar á líkamlegri getu leikmanna landsliða og afreksíþróttafólks. Nemendur í BSc-námi geta tekið þátt í þessum mælingum við hlið kennara og fengið ómetanlega reynslu. Í framhaldinu veita vísindamenn íþróttafræðideildar ráðgjöf um líkamsþjálfun byggða á niðurstöðum mælinganna.
Hvað fleira er um að vera í Íþróttafræðideildinni?
Íþróttafræðideildin heldur ótal málþing og opna fyrirlestra á hverri önn. Oft eru viðburðirnir í samráði við íþróttasambönd, íþróttafélög eða aðrar deildir innan HR, eins og til dæmis sálfræðideildina. Nemendur njóta því fjölmargra tækifæra til að hlýða á færustu sérfræðinga og þjálfara hverju sinni og oft komast færri að en vilja. Nemendur eru einnig með nemendafélagið Atlas sem heldur úti öflugu félagslífi í deildinni.
Hvert get ég farið í verknám?
Þú getur farið víða í verknám, allt eftir áhugasviði. Markmið með verknáminu er að auka þekkingu þína á þínu sviði og búa þig undir störf að námi loknu. Dæmi um þá staði sem nemendur hafa farið í verknám má sjá hér að neðan.
ÍSÍ | KKÍ |
ÍÞRÓTTAFÉLÖG | REYKJALUNDUR |
MÖRKIN | FSI |
GRENSÁRSDEILD LSH | HEILSUBORG |
ÍBR | KSÍ |
GRUNNSKÓLAR | FRAMHALDSSKÓLAR |
HSÍ | ÍF |
Skiptinám
Íþróttafræðisvið er í alþjóðlegu samstarfi við erlenda háskóla sem standa framarlega á sviði íþróttafræði í heiminum, svo sem Íþróttaháskólann í Köln og Háskólann í Sevilla ásamt öðrum háskólum innan og utan Evrópu.
Að námi loknu
BSc-nám í íþróttafræði við HR undirbýr þig fyrir störf á sviðum íþrótta, lýðheilsu og líkams- og heilsuræktar. Fjölbreytt atvinnutækifæri bíða íþróttafræðinga að námi loknu til dæmis hjá íþróttafélögum, æskulýðsfélögum, fyrirtækjum, stofnunum, sveitarfélögum og heilsuræktarstöðvum. Svo getur þú líka haldið áfram í meistaranám.
Áframhaldandi nám
Sérhæfing í þjálfun eða stjórnun
Að loknu BSc-námi í íþróttafræði getur nemandi öðlast frekari sérhæfingu með MSc-gráðu frá íþróttafræðisviði HR:
- Íþróttavísindi
- Íþróttavísindi og stjórnun - í samstarfi við Háskólann í Molde, Noregi
Kennsluréttindi að loknu meistaranámi
Til að öðlast kennsluréttindi í skólum þarf að ljúka grunnnámi (BSc) í íþróttafræði og meistaranámi (MEd) í íþróttavísindum og kennslu samkvæmt lögum og reglugerðum. Hægt er að stunda MEd-námið við íþróttafræðisvið HR.

Ertu með spurningar um námið?
Skipulag náms
Nemendur taka fimm námskeið, 30 ECTS einingar, á hverri önn. Undantekningin er sjötta önnin, þar sem lokaverkefni er metið sem tvö námskeið (12 ECTS).
Þriggja vikna námskeið
Afrekshópur
Sveigjanleiki í námi
Nemendur sem eru valdir í afrekshóp geta stillt námshraða sinn eftir álagi í íþróttum. Þeir geta þannig valið fjölda eininga sem þeir ljúka á ári með meiri sveigjanleika en aðrir nemendur. Meðlimir í afreksíþróttahópi geta fengið aðlögun á kennsluáætlun í öllum fögum, sem byggir á æfinga- og keppnisáætlun (sjá betur hér fyrir neðan í kafla um skilyrði).
Styrkir
Allt að þremur einstaklingum úr hópi afreksíþróttafólks er veittur styrkur fyrir skólagjöldum á hverri önn.
Mælingar og ráðgjöf
Einstaklingum í afrekshópi bjóðast nákvæmar grunnmælingar á líkamlegu og sálrænu ástandi sínu tvisvar sinnum á skólaárinu í samvinnu við þjálfara, og ráðleggingar um æfingaáætlun.
Skilyrði
Íþróttamaðurinn þarf:
- Að æfa og keppa reglulega á efsta stigi í sinni íþróttagrein.
- Að geta lagt fram æfinga- og keppnisáætlun, fjórum vikum fyrir byrjun hverrar annar, sem nær yfir alla önnina. Áætlunin skal vera staðfest af þjálfara eða sérsambandi.
- Að fylgja einstaklingsmiðaðri námsframvindu samkvæmt fyrirfram ákveðinni áætlun.
- Að fara í einu og öllu eftir lyfjareglum ÍSÍ. Ef styrkþegi gerist brotlegur við þær reglur missir hann styrk sinn umsvifalaust og þarf að endurgreiða þann styrk sem hann hefur áður fengið frá HR.
- Að vera tilbúinn að taka þátt í kynningarstarfi á vegum íþróttafræðisviðs HR.
- Að fylgja náms- og prófareglum HR í einu og öllu.
Gjaldgengar greinar
Íþróttafólk sem stundar íþróttir innan vébanda ÍSÍ sem og íþróttir utan ÍSÍ eins og til dæmis MMA, Crossfit og aflraunir er gjaldgengt í afrekshóp íþróttanema HR.
Umsóknir
Skila þarf inn umsóknum viku eftir að önn hefst.
Það sem þarf að koma fram í umsókn er að minnsta kosti eftirfarandi:
Lýsing á helstu afrekum síðastliðna 12 mánuði. Þar þarf krækjur (linka) á hvar hægt er að sannreyna gefnar upplýsingar (heimslistar, innlendar afrekssíður, úrslitasíður, blaðagreinar, mótadagskrá og svo framvegis).
- Æfinga- og keppnisáætlun næstu fjóra mánuði
- Markmið með æfingum á næstu misserum
- Staðfestur námsárangur, annar en innan HR
Valferlið
Þriggja manna valnefnd fer yfir allar umsóknir og ákvarðar hvort umsækjandi uppfylli viðmið fyrir afrekshóp. Allir þeir sem uppfylla viðmið afrekshópsins komast í hann. Nefndin velur svo allt að þrjá einstaklinga úr hópi þeirra sem komast í afrekshópinn sem fá skólagjöldin niðurfelld. Við val inn í hópinn og mögulegar styrkveitingar hefur nefndin eftirfarandi viðmiðið í huga.
- Staða á heimslistum
- Fjöldi alþjóðlegra verkefna
- Landsliðssæti
- Staða á afrekslistum innanlands
- Námsárangur
- Fyrirmynd/ímynd
- Gæði umsóknar
Upplýsingar og umsóknir
Vinsamlegast sendið fyrirspurninir og umsóknir til verkefnastjóra náms.
Kennarar
Vísindamenn og sérfræðingar
Nemendur í íþróttafræði njóta leiðsagnar öflugra vísindamanna á fagsviðinu og gestafyrirlesara með sérfræðiþekkingu úr atvinnulífinu. Kennarar við HR eru að jafnaði í miklum samskiptum við nemendur.

Aðstaða
Kennsla fer fram á netinu, í háskólabyggingu HR og á líkamsræktarstöð. Þá hefur íþróttafræðideild til umráða glæsilega aðstöðu til kennslu og rannsókna. Þar er m.a. að finna:
- Hlaupabretti, róðrarvél og Wingate hjól og Atom X Wattbike til að meta úthald
- Tæki til að mæla hámarkssúrefnisupptöku og mjólkursýruframleiðslu
- Lyftingarekka, stangir, lóðaplötur, handlóð, ketilbjöllur, TRX bönd, teygjur og æfingabolta
- Tanita mælitæki til að mæla líkamssamsetningu, fitufrían massa, hlutfall fitumassa og grunn orkuþörf
- Ýmiskonar mælitæki til að nota á vettvangi, s.s tímahlið, stökkmottur, gripstyrktarmæli, FMS hreyfifærni próf
- Átaksmæli frá Kinvent
Kennslustofur og lesherbergi
Húsnæði Háskólans í Reykjavík býður upp á afar góða aðstöðu til kennslu, lesturs og samvinnu nemenda. Kennslustofur eru vel búnar og nemendur geta nýtt sér hópavinnuherbergi. Almenn aðstaða er opin nemendum allan sólarhringinn. Sjá frekari upplýsingar um aðstöðuna í HR.
Góð þjónusta
Í háskólabyggingunni er greiður aðgangur að náms- og starfsráðgjöf, alþjóðaskrifstofu og tækniaðstoð. Á bókasafninu er góð og fjölbreytt vinnuaðstaða. Safnið býður aðgang að bókum og fræðigreinum og upplýsingafræðingar eru með opna tíma þar sem nemendur geta litið við og fengið ráðleggingar og aðstoð vegna heimildavinnu.
Verslanir og kaffihús
Í HR er Háskólabúðin sem selur nauðsynjavörur, kaffihús, æfingasalur World Class og Málið veitingasala
Af hverju íþróttafræði í HR?
- Öflugt verknám
- Möguleg sérhæfing miðað við áhugasvið
- Framúrskarandi aðstaða
- Gott aðgengi að kennurum
- Samheldinn hópur nemenda
- Góð blanda af verklegu og bóklegu námi