- PDF bæklingur - Byggingafræði
Byggingafræðingar fást við hönnun nýbygginga og endurgerð gamalla húsa, samningagerð við verktaka, kostnaðarmat, gerð raunteikninga, hönnun eldvarna og hljóðeinangrunar og margt fleira. Sérþekking þeirra er eftirsótt á vinnumarkaðnum og hún nýtist í auknum mæli við hönnun og byggingu stærri og minni mannvirkja.
HR er eini háskólinn á Íslandi sem kennir byggingafræði. Byggingafræði er 210 ECTS nám sem veitir BSc-gráðu og löggilt starfsheiti sem byggingafræðingur. Að námi loknu eiga nemendur að vera færir um að sinna fjölbreyttum störfum í byggingaiðnaði og atvinnulífi og þá sérstaklega sem fagaðilar milli byggingahönnuða, byggingayfirvalda og framkvæmdaraðila.
Efnisþættir í náminu eru meðal annars arkitektúr, byggingartækni, efnisfræði helstu byggingaefna, grunnatriði í burðarvirkjahönnun, lagnahönnun, framkvæmdafræði, tölvustudd hönnun, lögfræði, stjórnun og rekstur, mælingar, viðgerðir og endurbætur, samskipti, skipulag og áætlanagerð, hljóðfræði, vistvæni og sjálfbærni.
Frá fyrsta degi er nemendum hent út í djúpu laugina þar sem þeir eiga að leysa flókin og spennandi verkefni. Í gegnum allt námið er unnið með PBL (e. Project Based Learning) eða „að læra með því að gera“. Þar knýja raunhæfu verkefnin námið áfram þar sem nemendur þurfa að tileinka sér þá þekkingu og hæfni sem þarf til að geta leyst þau, og þurfa jafnframt að geta borið sig eftir þekkingu og hæfni sem upp á vantar.
Verkefnin vinna nemendur í sjálfstæðri vinnu og með leiðsögn breiðs hóps kennara sem hafa mikla hagnýta reynslu af hönnun og framkvæmdum. Leitast er við að nota framsæknar, tölvustuddar aðferðir við hönnun. BIM (e. Building Information Modeling) er rauður þráður í náminu.
Fræðilegir stoðáfangar eru keyrðir samhliða verkefnunum og stilltir af þannig að sú þekking sem er verið að miðla nýtist nemendum einmitt á réttum tíma í stóru annarverkefnunum. Þannig verða stoðáfangarnir eðlilegur hluti af vinnu nemenda.
Nemendur hljóta mikla þjálfun í að leysa verkefni þar sem hópavinna og samskipti skipta miklu máli. Það er mikilvægt að fá slíka þjálfun þar sem byggingafræðingar starfa með mörgum aðilum úr mismunandi greinum, til að mynda iðnaðarmönnum, byggingayfirvöldum, verkfræðingum og arkitektum. Nemendur fá jafnframt góða þjálfun í að miðla þekkingu sinni áfram á skýran og skilvirkan hátt.
Starfsnám er mikilvægur þáttur í BSc-námi í byggingafræði. Starfsnámið undirbýr nemendur vel fyrir kröfur vinnumarkaðarins að námi loknu.
Nemendur eiga að ljúka 6-8 vikna starfsnámi hjá fyrirtækjum þar sem þeir fá tækifæri til að nýta þekkingu sína og kynnast því hvernig tekist er á við hagnýt og raunveruleg verkefni. Starfsnám er síðasta námskeiðið sem byggingafræðinemar taka áður en þeir fara í lokaverkefni.
Nemendur eru sjálfir ábyrgir fyrir því að finna sér hentugan starfsnámsstað eftir áhugasviði en umsjónarkennari námskeiðsins er nemendum innan handar við leit að starfsnámi. Mikil eftirspurn er eftir byggingafræðinemum í atvinnulífinu og eru starfsnámsstaðir einmitt oft fyrsti vinnustaður nýútskrifaðra byggingafræðinga.
• Arkís arkitektar • ÍAV • ÍSTAK • VÍS • EFLA • Batteríið arkitektar • Verkís • Límtré Vírnet • arkitektur.is • Basalt Architects • Mannvit • VSÓ ráðgjöf • Verksýn • BM Vallá/Smellinn • ASK arkitektar • byggingafulltrúaembættin • byggingaverktakar
Mynd: Úr Safnaðarheimili Ástjarnarkirkju, hönnun: Arkís arkitektar.
Byggingafræðingar hafa breitt þekkingarsvið og vinna því við fjölbreytt störf tengd byggingariðnaði. Þeir starfa meðal annars við hönnun mannvirkja og eftirlit og stjórnun framkvæmda. Þekking þeirra á byggingaferli, efnisvali og verkefnastjórnun er afar dýrmæt.
„Í vinnunni fæst ég við að hanna allt frá smæstu byggingarhlutum upp í deiliskipulag. Þar má nefna greiningarvinnu, þrívíddarteikningu, utanumhald og samvinnu með fólki úr öllum kimum mannvirkjahönnunar. Dagarnir eru mjög fjölbreyttir og verkefnin ólík.“
„Flest sem ég geri í vinnunni hefur snertifleti við það sem fór fram í náminu. Verklagið, ferlarnir og aðferðirnar voru kenndar og kynntar fyrir okkur á mjög skilvirkan hátt, þar sem við unnum stór verkefni líkt og um raunverulegt verk væri að ræða. Eftir nám í byggingafræði eru viðfangsefni vinnumarkaðarins því líkt og beint framhald. Einnig eru möguleikar á sérhæfingu margvíslegir og þannig er vel hægt að móta þekkinguna og reynsluna að ólíkum viðföngum og áhugasviðum innan fagsins.“
„Ég kem að flestum þáttum hönnunar bygginga, allt frá útliti til lokafrágangs. Ég vinn meðal annars við að teikna upp aðaluppdrætti, verkteikningar og deiliteikningar. Efnisval og úrlausnaratriði eru stór þáttur í minni vinnu. Ég vinn náið með arkitektum og öðrum hönnuðum svo sem verkfræðingum og svo viðskiptavinum.“
„Námið nýttist einstaklega vel til undirbúnings fyrir þetta starf. Það hvernig maður lærir að leita sér þekkingar hefur reynst afar vel. Námið er byggt upp að miklu leyti eins og maður sé á vinnumarkaðnum og það skilar sér svo sannarlega.“
„Ráðningar og uppsagnir starfsmanna, umsjón og gerð ráðningarsamninga, móttaka og undirbúningur vegna komu nýrra starfsmanna. Einnig ráðgjöf og aðstoð vegna mála er varða réttindi, skyldur starfsmanna, umsjón með endurmenntun starfsmanna, ytri og innri námskeið. Gerð mannaflaáætlana smiða og verkamanna í samráði við verkefnis- og byggingarverkstjóra og samskipti við Samtök iðnaðarins í tengslum við kjaramál. Umsjón með tengslum við menntastofnanir á sviði tækni- og iðnmenntunar og umsjón með móttöku nemenda frá þessum stofnunum.“
„Námið í byggingafræði var einstaklega áhugavert nám með góðum kennurum sem höfðu praktíska reynslu úr atvinnulífinu. Námið var góð blanda af bóklegum og verklegum fögum þar sem kennslan var mjög persónuleg. Eftir námið hef ég stundað vinnu við byggingastjórn, verkefnastjórn og nú mannauðsstjórn og hefur námið hjálpað mér að vera skipulagður, setja mér markmið og vinna að þeim.“
Við útskrift bíður byggingafræðinga fjölbreyttur og spennandi starfsvettvangur. Margir byggingafræðingar starfa hjá teiknistofum, arkitekta- og verkfræðistofum og hjá verktakafyrirtækjum sem verkefnastjórar eða byggingarstjórar. Byggingafræðingar starfa jafnframt hjá tryggingafélögum, fasteignafélögum, bönkum, fasteignasölum, fyrirtækjum í byggingariðnaði og hjá hinu opinbera.
Byggingafræðingar eiga möguleika á að verða löggiltir hönnuðir að uppfylltum skilyrðum og að undangengnum þriggja ára starfstíma, námskeiði og prófi á vegum Mannvirkjastofnunar. Þeir geta þá starfað sem sjálfstæðir hönnuðir með réttindi til að skila inn aðaluppdráttum, uppdráttum að skipulagi lóða og tilheyrandi deiliuppdráttum.
Með því að útskrifast með BSc-gráðu í byggingafræði geta nemendur sótt um að hljóta löggilt starfsheiti sem byggingafræðingar. Það er Byggingafræðingafélag Íslands sem setur skilyrði til löggildingar og gefur út leyfi fyrir notkun starfsheitisins. Þetta er samkvæmt lögum nr. 8/1996 um löggildingu starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum. Sótt er um löggildingu á vef félagsins.
Á ensku kallast BSc-gráða í byggingafræði Bachelor of Architectural Technology and Construction Management.
Byggingafræðingar geta sótt mastersnám, diplómanám og hin ýmsu námskeið til endurmenntunar. Möguleikarnir á framhaldsnámi eru fjölmargir, bæði hérlendis og erlendis.
Öll kennsla fer fram í háskólabyggingu HR. Þar er aðstaða til verklegrar kennslu, hópavinnuherbergi, mötuneyti, náms- og starfsráðgjöf og önnur þjónusta við nemendur.
Í HR er áhersla lögð á verkkunnáttu og þjálfun ásamt fræðilegri undirstöðu. Því er aðstaða til verklegrar kennslu til fyrirmyndar. Til dæmis hafa nemendur aðgang að rannsóknarstofu í mannvirkjahönnun.
Húsnæði Háskólans í Reykjavík býður upp á afar góða aðstöðu til kennslu, lesturs og samvinnu nemenda. Kennslustofur eru vel búnar og nemendur geta nýtt sér hópavinnuherbergi. Almenn aðstaða er opin nemendum allan sólarhringinn.
Í háskólabyggingunni er greiður aðgangur að náms- og starfsráðgjöf, alþjóðaskrifstofu og tækniaðstoð. Á bókasafninu er góð og fjölbreytt vinnuaðstaða. Safnið býður aðgang að bókum og fræðigreinum og upplýsingafræðingar eru með opna tíma þar sem nemendur geta litið við og fengið ráðleggingar og aðstoð vegna heimildavinnu.
Í HR er jafnframt Háskólabúðin sem selur helstu nauðsynjavörur, kaffihús, æfingasalur World Class og Málið veitingasala.
Sjá fleiri myndir af aðstöðunni
Nemendur í byggingafræði njóta leiðsagnar öflugra vísindamanna á fagsviðinu, bæði tæknifólks og hönnuða. Kennarar við HR eru að jafnaði í miklum samskiptum við nemendur. Byggingafræði heyrir undir byggingasvið.
Meðal þeirra sem koma að kennslu í byggingafræði er fjöldi stundakennara sem færa atvinnulífið beint inn í skólastofurnar og miðla fræðslu um verklag og verkefni sem þeir eru að fást við hverju sinni.
Eyþór R. Þórhallsson
Viggó Magnússon, byggingafræðingur
Námsbrautarstjóri BSc-náms í byggingafræði
viggom@ru.is
Þormóður Sveinsson, arkitekt
Kennari í arkitektúr og skipulagi
Eyþór Rafn Þórhallsson, dósent
Kennari í burðarþoli
eythor@ru.is
Aldís Ingimarsdóttir, aðjúnkt
Kennari í byggingareðlisfræði
aldisi@ru.is
Helgi Guðjón Bjarnason, byggingafræðingur
Kennari í BIM/revit
helgig@tark.is
Sveinbjörn Jónsson
Kennari í verkefnastjórnun, áætlanagerð og fjármálum í verkefnum
sveinbjornj@ru.is
Aðalheiður Atladóttir, arkitekt
Kennari í Hönnun fjölbýlishúsa
alla@afarkitektar.org
Falk Krüger, arkitekt
Kennari í Hönnun fjölbýlishúsa
falk@afarkitektar.org
Eiríkur Ástvald Magnússon, byggingarverkfræðingur
Kennari í byggingareðlisfræði
eirikur.magnusson@efla.is
Guðmundur Gunnarsson, byggingarverkfræðingur / MPA í opinberri stjórnsýslu
Kennari í brunaþoli bygginga
gudmundur@inspectionem.is
Guðrún Jónsdóttir, byggingarverkfræði / hljóðverkfræðingur
Kennari í hljóðvist
gudrun.jonsdottir@efla.is
Jón Bryngeir Skarphéðinsson, byggingafræðingur
Byggingafræði - byggingatækni
jon@ark.is
Guðmundur Hreinsson, byggingafræðingur / húsasmíðameistari
Inngangur að byggingafræði
ghr@togt.is
Námið hefst alltaf á haustönn.
Fyrri hluti námsins er 90 ECTS einingar, kennt í fjarnámi. Síðari hluti námsins er 120 ECTS eininga verkefnamiðað nám, kennt í staðarnámi með staðarlotum. Alls eru fyrri og seinni hluti 210 ECTS.
Athugið að frá og með haustönn 2021 tekur í gildi nýtt skipulag fyrir BSc í byggingafræði sem gerir ráð fyrir að nemendur séu í fullu námi og ljúki fyrri hluta námsins á þremur önnum í stað sex áður.
Seinni hluti námsins sem fer fram í fullu staðarnámi er tvö ár.
Heildar námstími er því 7 annir eða 3 1/2 ár í fullu námi.
Nýtt skipulag gildir fyrir nemendur sem innritast á haustönn 2021 en hefur ekki áhrif á núverandi nemendur sem fylgja enn sínu skipulagi.
Kennt í fjarnámi með tveimur staðarlotum á önn, eina helgi í senn. Í sumum áföngum eru staðarloturnar nýttar fyrir verklegar æfingar og einnig er farið í fyrirtæki og verkefni unnin í raunumhverfi.
Nemendur eru skráðir í sömu tíma og staðarlotur og nemendur sem taka diplómanám í byggingariðnfræði.
Byggingafræðinámið er byggt upp þannig að því er skipt upp í fjórar staðarlotur þar sem áhersla er lögð á innlögn, fyrirlestra og endurgjöf fyrir verkefni og verklag fyrir næstu fjórar vikur fram að næstu staðarlotu. Milli staðarlota er verkefnavinna hópa og einstaklinga, allt eftir námskeiðum. Viðvera kennara námskeiða er í stofu í miðri viku þar sem nemendur hafa aðgang að þeirri aðstoð sem nauðsynleg er í þeim verkefnum sem lögð eru fyrir í staðarlotum.
Dagsetningar staðarlota á vorönn 2021
1. staðarlota 14. - 16. janúar
2. staðarlota 11. - 13. febrúar
3. staðarlota 11. - 13. mars
4. staðarlota 8. - 10. apríl
5. námsmatstímabil 1 verður 3. - 14. maí 2021.
Námsáætlun
Athugið að þessi áætlun er birt með fyrirvara um breytingar.
BSc 1. ár - 30 ECTS (fjarnám) | Bsc 1. ár 30 ECTS (fjarnám) |
---|---|
Haust | Vor |
|
|
BSc 2. ár - 30 ECTS (fjarnám) | BSc 2. ár 30 ECTS (staðarnám) |
---|---|
Haust | Vor |
|
|
BSc 3. ár - 30 ECTS (staðarnám) |
BSc 3. ár 30 ECTS (staðarnám) |
---|---|
Haust | Vor |
|
|
BSc 4. ár - 30 ECTS (staðarnám) |
---|
Haust |
|
Fyrir þau sem ekki uppfylla þessi skilyrði er boðið upp á námskeið sem hægt er að stunda í fjarnámi samhliða byggingafræðináminu.
Byggingafræði er námsbraut innan iðn- og tæknifræðideildar HR.
Hjördís Lára Hreinsdóttir