Byggingartæknifræði BSc

Byggingartæknifræðingar taka þátt í mótun umhverfis okkar með hönnun, framkvæmdum og rekstri mannvirkja. Þar að auki fást þeir við verkefni tengd umhverfis- og skipulagsmálum: umhverfismati framkvæmda og þróun á umhverfisvænum lausnum fyrir byggingariðnaðinn.

Um námið

Uppbygging á mörgum sviðum

Byggingartæknifræði spannar flest af því sem snýr að uppbyggingu samfélagsins og innviðum þess. Sem dæmi má nefna mannvirkjagerð, umhverfis- og skipulagsmál, vega- og gatnagerð, lagnir og veitur og stjórnun framkvæmda. BSc-nám í byggingartæknifræði er 210 ECTS einingar og tekur þrjú og hálft ár.

Hagnýtt nám

Uppbygging námsins tekur mið af þörfum atvinnulífsins, með áherslu á hagnýta tækniþekkingu sem nýtist vel frá fyrsta degi í starfi. Nemendur vinna raunhæf og krefjandi verkefni þar sem farið er í gegnum öll stig verkferlisins, frá frumhönnun og greiningu, að hönnun og teiknun, auk undirbúnings framkvæmda með gerð útboðsgagna, verk- og kostnaðaráætlana.

Sérhæfing

Á fyrstu misserum námsins eru kennd skyldunámskeið og tekist á við hinn fræðilega grunn sem nauðsynlegur er til að tryggja þá grunnþekkingu sem þarf við lausn tæknifræðilegra verkefna. Á síðari stigum byggja nemendur upp faglega sérhæfingu á þeim grunni.

Sérhæfingarsviðin eru:

  • burðarvirki
  • framkvæmdir
  • lagnir
  • umhverfi

Lokaverkefni

Náminu lýkur með viðamiklu lokaverkefni á sérhæfingasviði sem að öllu jöfnu er unnið í samvinnu við fyrirtæki eða í tengslum við rannsóknarverkefni starfsmanna.

Lifandi nám

Nemendur í byggingartæknifræði við HR fá ótal tækifæri til þess að leysa raunveruleg vandamál, allt frá hugmyndastigi að hönnun og smíði, ásamt því að öðlast sterkan og breiðan fræðilegan bakgrunn. Þeir eru hvattir til að taka þátt í hönnunarverkefnum og/eða hönnunarnámskeiðum og skoða kosti starfsnáms til að kynnast raunverulegum og aðkallandi hagnýtum verkefnum.

12+3 kerfið

Í náminu eru annir brotnar upp í tvo hluta. Fjögur námskeið eru kennd í 12 vikur og síðan er prófað úr þeim. Að prófum loknum taka við þriggja vikna námskeið þar sem námsefnið er sett í hagnýtt samhengi með verkefnavinnu, hópavinnu og/eða samstarfi við fyrirtæki.

Hugmyndavinna strax á fyrsta ári

Á fyrsta námsári standa nemendur frammi fyrir raunhæfu verkefni sem þarf að takast á við og skoða frá mörgum hliðum. Námskeiðið heitir Inngangur að tæknifræði. Nemendur vinna í hópum við að útfæra lausnir og leysa þau fjölmörgu vandamál sem upp gætu komið. Þeir kynna svo niðurstöður sínar fyrir leiðbeinendum og öðrum nemendum. Viðfangsefni nemenda hafa meðal annars verið að:

  • hanna nýjan þjóðarleikvang
  • koma með nýstárlegar hugmyndir að brú yfir Fossvoginn
  • bregðast við eldgosi í nágrenni Reykjavíkur
  • undirbúa Eurovision-keppnina á Íslandi
  • gera aðgerðaráætlun vegna bólusóttarfaraldurs

CDIO-samstarfsnetið

Færni í hugmyndavinnu, verkefnastjórnun, samskiptum og kynningum er þjálfuð í ýmsum námskeiðum gegnum allt námið. Þetta samræmist hugmyndafræði CDIO, sem er samstarfsnet framsækinna háskóla sem kenna tæknigreinar og HR er þátttakandi í.

Í CDIO-aðferðafræðinni er lögð áhersla á samráð háskóla og atvinnulífs og fagfélaga. Mótun námsbrauta í anda CDIO á að tryggja að nemendur fái lausnamiðaða tæknilega færni sem vinnuveitendur sækjast eftir, án þess að slegið sé af fræðilegum kröfum.

Skiptinám

Nemendur geta sótt um að fara í skiptinám við erlendan háskóla. Skiptinám er tilvalið tækifæri fyrir upprennandi tæknifræðinga til að kynnast námi og störfum í öðrum löndum, og það er jafnvel hægt að nýta skiptinám til að öðlast meiri sérhæfingu á áhugasviði. Nemendur í BSc-námi þurfa að vera með 7 eða yfir í meðaleinkunn og búnir með 60 einingar þegar þeir fara í skiptinámið. Skrifstofa alþjóðaskipta veitir frekari upplýsingar um hvert hægt er að fara í skiptinám.

Starfsnámið veitir forskot

Nemendur í byggingartæknifræði taka 12 ECTS í starfsnámi. Iðn- og tæknifræðideild er með samninga við um 40 fyrirtæki og stofnanir. Margir nemendur hafa fengið tilboð um starf til lengri eða skemmri tíma í kjölfar starfsnáms og lokaverkefna sem unnin eru í samstarfi við fyrirtæki.

Markmið með starfsnámi

Með því að ljúka starfsnámi auka nemendur þekkingu sína á því sviði sem þeir stunda nám. Þeir búa sig jafnframt undir störf að námi loknu.

Ávinningur af starfsnámi er margvíslegur. Markmið með starfsnámi er meðal annars að: 

  • efla tengsl nemenda við atvinnulífið.
  • auka innsýn og skilning nemenda á viðfangsefnum viðkomandi fagsviðs.
  • að nemendur öðlist reynslu af því að vinna að úrlausn raunhæfra viðfangsefna á vettvangi, undir leiðsögn leiðbeinenda úr atvinnulífinu.
  • að nemendur beiti aðferðum tæknifræðinnar við lausn hagnýtra verkefna.
  • að nemendur geti unnið sjálfstætt og borið ábyrgð á eigin þekkingarleit og faglegum áherslum.
  • að nemendur tileinki sér sjálfstæð og markviss vinnubrögð við úrlausn raunhæfra hönnunar-, greiningar- og/eða rannsóknarverkefna á fagsviðinu.

Fyrirtæki

Hér eru nokkur dæmi um fyrirtæki þar sem tæknifræðingar starfa og nemendur hafa farið í starfsnám:

Orka náttúrunnar • Mannvit • HB Grandi • HS Orka •Jáverk • Orkuveita Reykjavíkur • Ístak • VSÓ Ráðgjöf • Landsvirkjun • Össur • Marel • Síminn• Trefjar • VSB verkfræðistofa • Verkís • VHE vélaverkstæði • Efla • Landsnet • Norðurorka • Alcoa • Stálsmiðjan • Framtak • Elkem

Að námi loknu

Lögverndað starfsheiti

Byggingartæknifræðingar eru frá útskrift tilbúnir til að takast á við raunveruleg verkefni í sínu fagi. Þau sem ljúka lokaprófi í tæknifræði (BSc) hljóta staðfestingu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og full réttindi til að starfa sem tæknifræðingar og nota lögverndaða starfsheitið tæknifræðingur (enska: Certified Engineer). 

Þau sem ljúka BSc-námi í tæknifræði, eru með sveinsbréf og hafa lokið tilskildum starfstíma geta jafnframt sótt meistarabréf í tilsvarandi iðngrein, en HR ber ekki ábyrgð á að gefa út slík leyfi.

Maður stendur á gangi og horfir í myndavélina

Andri Þór Arinbjörnsson, byggingartæknifræðingur og framkvæmdastjóri Eignaumsýslusviðs Reita:

„Í mínu starfi þarf ég að takast á við verkefni sem snúa að öllu því sem viðkemur framkvæmdum, viðhaldi og rekstri fasteigna. Námið í byggingartæknifræðinni var frábær undirbúningur og hjálpaði mér mikið við að fóta mig í þessum fjölbreyttu verkefnum.“

Verðmætir starfsmenn

„Það er mikil eftirspurn eftir byggingartæknifræðingum. Nýútskrifaðir byggingartæknifræðingar hafa reynst verðmætir starfsmenn EFLU frá fyrsta degi.“ - Jóhannes Benediktsson, tæknifræðingur og fagstjóri verkefnastjórnunar hjá verkfræðistofunni EFLU.

„Tæknifræðingar eru eftirsóttir starfskraftar vegna hagnýtrar reynslu og faglegrar þekkingar. Á bak við tæknifræðinga stendur öflugt félag 1300 félagsmanna, Tæknifræðingafélag Íslands.“ - Árni B. Björnsson, framkvæmdastjóri Tæknifræðingafélags Íslands.

Hvað segja nemendurnir?

Sigurður Halldór Örnólfsson, byggingartæknifræðingur frá HR:

„BSc í byggingartæknifræði við HR var mjög góður undirbúningur fyrir framhaldsnám í byggingarverkfræði, og reyndist námið bæði skemmtilegt og krefjandi. Það gefur innsýn inn í þann gríðarlega fjölbreytta starfsvettvang sem bíður byggingartæknifræðinga allt frá stjórnun smærri verka upp í heildarhönnun heilu flugvallanna.“

Aron Valur Leifsson, nemi í byggingartæknifræði:

„Ég valdi tæknifræðina því námið er frábær viðbót við iðnnám og veitir starfsréttindi eftir aðeins þrjú og hálft ár.“

Eydís Sunna Ægisdóttir, nemi í byggingartæknifræði:

„Mér fannst skemmtilegt að gera verkleg verkefni í efnisfræði byggingarefna og ég er mjög spennt fyrir starfsnáminu sem hefst á þriðja ári. Einnig standa þriggja vikna kúrsarnir upp úr. Einn helsti kosturinn við tæknifræðina er að eftir þrjú og hálft ár fær maður full réttindi til að starfa sem tæknifræðingur. Maður hefur svo val um að sérhæfa sig meira og taka master, þá er maður kominn með verkfræðina líka.“

Áhugaverður starfsvettvangur

Byggingartæknifræðingar fást við meðal annars hönnun, framkvæmdastjórnun og rekstur. Einnig umsýslu fasteigna, störf í fagtengdri stjórnsýslu á vegum ríkis og sveitarfélaga og stjórnun og eftirlit í verktaka- og framleiðslufyrirtækjum. Þeir fást einnig við umhverfismál, svo sem umhverfismat framkvæmda, endurvinnslu og förgun úrgangs og þróun á umhverfisvænum lausnum fyrir byggingariðnaðinn.

Þekking og færni

Í lærdómsviðmiðum má sjá hvaða þekkingu, leikni og hæfni nemendur eiga að búa yfir að námi loknu.

Framhaldsnám

Tæknifræðinámið veitir góða undirstöðu fyrir framhaldsnám í verkfræði á tengdum sviðum innanlands sem erlendis.

Aðstaða

Þjónusta og góður aðbúnaður

Öll kennsla fer fram í háskólabyggingu HR. Þar er lesaðstaða og bókasafn, aðstaða til verklegrar kennslu, hópavinnuherbergi, mötuneyti, náms- og starfsráðgjöf og önnur þjónusta við nemendur.

Myndin sýnir nemendur læra í Sólinni

Verkleg kennsla

Í HR er áhersla lögð á verkkunnáttu og þjálfun ásamt fræðilegri undirstöðu. Því er aðstaða til verklegrar kennslu til fyrirmyndar. 

Kennslustofur og lesherbergi

Húsnæði Háskólans í Reykjavík býður upp á afar góða aðstöðu til kennslu, lesturs og samvinnu nemenda. Kennslustofur eru vel búnar og nemendur geta nýtt sér hópavinnuherbergi. Almenn aðstaða er opin nemendum allan sólarhringinn. Sjá fleiri myndir af aðstöðunni í HR.

Góð þjónusta

Í háskólabyggingunni er greiður aðgangur að náms- og starfsráðgjöf, alþjóðaskrifstofu og tækniaðstoð. Á bókasafninu er góð og fjölbreytt vinnuaðstaða. Safnið býður aðgang að bókum og fræðigreinum og upplýsingafræðingar eru með opna tíma þar sem nemendur geta litið við og fengið ráðleggingar og aðstoð vegna heimildavinnu.

Verslanir og kaffihús

Í HR er Háskólabúðin sem selur nauðsynjavörur, kaffihús, æfingasalur World Class og Málið veitingasala. 

Kennarar

Sérfræðiþekking og reynsla

Nemendur í byggingartæknifræði njóta leiðsagnar öflugra vísindamanna á fagsviðinu, tæknimanna og hönnuða innan háskólans, og fjölda stundakennara með sérfræðiþekkingu úr atvinnulífinu. Kennarar við HR eru að jafnaði í miklum samskiptum við nemendur og í góðum tengslum við atvinnulífið. 

 

Skipulag náms BSc

Skipulag náms

Námstími: 3 1/2 ár í fullu námi. Einingar: 210 ECTS.

Námið er 30 ECTS einingar á önn. Öll námskeið eru 6 ECTS nema annað sé tekið fram. Námsskipulag er birt með fyrirvara um breytingar.


1. ár
HaustVor                                                                                           
2. ár                     
HaustVor
3. ár                                                                                                              
HaustVor
  • Framkvæmdastjórnun

  • 3 sérhæfð valnámskeið

  • Nýsköpun og stofnun fyrirtækja
    (þriggja vikna námskeið)

4. ár
HaustValnámskeið í sérhæfingu                                                 
  • Valnámskeið

  • Aðferðafræði  

  • Lokaverkefni                                                                                       

  • Tré- og stálvirki II                                                               

Valnámskeið eru háð því að lágmarksfjöldi nemendi skrái sig í þau hverju sinni

Nánari upplýsingar um tilhögun náms

Sérhæfing

Nemendur geta sérhæft sig innan byggingnartæknifræði á fjórum sviðum; burðarvirki, umhverfi, framkvæmdum, og í lagnahönnun. Sérhæfing fæst með starfsnámi á 5 önn (12 ECTS), tveimur valnámskeiðum á 6 önn (12 ECTS) og með vali á viðfangsefni í lokaverkefni á 7 önn (24 ECTS). Samtals er val 48 ECTS einingar.

Leiðbeint val fyrir sérhæfingu

Burðarþol
Stærðfræði III
Tré- og stálvirki II
Hreyfiaflfræði
Steinsteypuvirki II
Jarðskjálftagreining mannvirkja
Töluleg greining

Innviðir og umhverfi
Sjálfbærni
Loftræsitækni
Umferðartækni og vegaframkvæmdir
Grundun mannvirkja
Vatns- og fráveitur

Lagnir og loftræsing
Straumfræði og straumvélar
Loftræsitækni
Vatns- og fráveitur
Brunatæknileg hönnun
Vindorka / Jarðhiti

Framkvæmdastjórnun
Sjálfbærni
Verkefnastjórnun og stefnumarkandi áætlanagerð
Grundun mannvirkja
Brunatæknileg hönnun

Inntökuskilyrði

Umsóknarfrestur frá 5. febrúar til 5. júní

Nauðsynlegur undirbúningur

Til að hefja nám í tæknifræði þurfa umsækjendur að hafa lokið stúdentsprófi, prófi úr Háskólagrunni HR, 4. stigs vélstjórnarprófi, sveinsprófi eða staðist lokapróf frá framhaldsskóla á 3. hæfniþrepi. Nauðsynlegt er að uppfylla einingafjölda og hæfniþrep sem talin eru upp hér fyrir neðan. Námsefni og kennsla á fyrsta ári í tæknifræði er miðuð við að nemendur hafi eftirfarandi undirbúning. Hægt er að lesa meira um hæfniþrep á vef mennta- og menningarmálaráðuneytis. 

Stærðfræði

20 einingar, þar af 15 einingar á 3. hæfniþrepi. Miðað er við áfanga af náttúrufræði- eða náttúruvísindabraut.

Eðlisfræði

Umsækjendur í byggingartæknifræði: 5 einingar á 2. eða 3. hæfniþrepi.

Umsækjendur í rafmagntæknifræði, orku- og véltæknifræði, iðnðaðar- og orkutæknifræði: 10 einingar á 2. eða 3. hæfniþrepi.

Íslenska

20 einingar

Enska

15 einingar

Stöðupróf í stærðfræði og eðlisfræði

Til að koma til móts við umsækjendur sem uppfylla ekki inntökuskilyrði í tæknifræði er boðið upp á stöðupróf í stærðfræði og eðlisfræði.

Stöðuprófin eru ætluð fyrir:

  • Þau sem telja sig hafa nægilegan grunn án þess að hafa lokið tilskyldum framhaldsskólaeiningum
  • Þau sem uppfylla inngönguviðmið en vilja rifja upp námsefnið og sjá hvar þau standa áður en nám hefst

Prófin fara fram um miðjan/lok júní í húsnæði HR við Nauthólsvík. Ekki verður að svo stöddu boðið upp á fjarpróf.

Athugið að ef sótt er um inntöku með stöðuprófi í stærðfræði og eðlisfræði, þarf samt sem áður að uppfylla kröfur um einingafjölda í íslensku og ensku.

Próf í stærðfræði:

Umsækjendur þreyta eitt stöðupróf. Prófið fer fram í júní og í því er kannaður grunnur í algebru auk annars efnis: Almenn brot, einfaldar jöfnur, prósentureikningur, rauntalnalínan, þáttun, mengi, föll, hornaföll, deildun, heildun, vigrar

Próf í eðlisfræði:

Stöðupróf í eðlisfræði fer fram í júní.

Umsækjendur í byggingartæknifræði taka A hluta stöðuprófs.

Umsækjendur í rafmagnstæknifræði, orku- og véltæknifræði, iðnaðar- og orkutæknifræði taka bæði A hluta og B hluta stöðuprófs.

A HLUTI B HLUTI
Mælieiningar Grunnhugtök í rafmagnsfræði
Vigrar Segulmagn og segulsvið
Hraði og hröðun Segulkraftar
Hreyfing í tveimur víddum Span
KraftarBylgjur
OrkaLjós
Skriðþungi
Vökvar
Varmi og varmaflutningur


Framkvæmd:

  1. Umsækjendur skrá sig með því að senda póst á Birtu Sif, verkefnastjóri í tæknifræði; birtaa@ru.is . Umsækjendur fá sendan hlekk inn á skráningarsíðu þar sem þau greiða fyrir stöðuprófið.
  2. Skráning er staðfest og umsækjendur fá aðgang að undirbúningsefni.
  3. Upplýsingar um prófstað og próftíma eru sendar áður en prófið fer fram í júní.

Þau sem standast nauðsynleg stöðupróf með einkunn 6 eða hærra er velkomið að hefja nám í tæknifræði. Þau sem ekki standast nauðsynleg stöðupróf geta hafið nám í Háskólagrunni til frekari undirbúnings. Að loknu námi í Háskólagrunni geta þau sótt um nám í tæknifræði.

Til þess að fá nánari upplýsingar og/eða skrá sig í stöðupróf sendið póst á birtaa@ru.is .

Við HR er hægt að ljúka viðbótarnámi við stúdentspróf ef einstaklinga vantar undirbúning í raungreinum, og Háskólagrunni HR ef frekari undirbúning vantar. 

Iðnfræðin metin

Útskrifaðir iðnfræðingar geta fengið hluta af námi sínu metið inn í tæknifræðinám iðn- og tæknifræðideildar. Til að hefja nám í byggingartæknifræði þarf byggingariðnfræðingur eftir atvikum að bæta við sig einni önn í Háskólagrunni. Uppfylli viðkomandi lágmarkseinkunn fær hann að lágmarki 43 ECTS metna inn í námið í byggingartæknifræði. 

Vantar þig grunninn?

Eða meiri undirbúning í stærðfræði? Byrjaðu strax í HR

Háskólagrunnur HR er undirbúningur fyrir háskólanám. Þegar nemendur sækja um velja þeir háskólagrunn miðað við það háskólanám sem stefnt er að í framhaldinu. Einnig geta þeir sem hafa lokið stúdentsprófi bætt við sig einingum í til dæmis stærðfræði og raungreinum í viðbótarnámi við stúdentspróf.

Frekari upplýsingar 

Áhugasamir eru hvattir til að hafa samband og þiggja einstaklingsráðgjöf. Hver nemandi er metinn sérstaklega.


Birta Sif Arnardóttir

Verkefnastjóri náms í tæknifræði

Netfang: birtaa(hja)ru.is
Sími: 599-6252

Umsóknarvefur



Gott að vita:






Þetta vefsvæði byggir á Eplica