Byggingartæknifræði BSc

Byggingartæknifræðingar taka þátt í mótun umhverfis okkar og vinna við mannvirkjagerð framtíðarinnar. Í því felst meðal annars hönnun, framkvæmd og rekstur mannvirkja en þar að auki störf tengd umhverfis- og skipulagsmálum, svo sem umhverfismat framkvæmda og þróun á umhverfisvænum framtíðarlausnum fyrir byggingariðnaðinn.

Um námið

Nemendur og kennarar segja frá byggingatæknifræðináminu við HR

Uppbygging á mörgum sviðum

Fagsviðið spannar því flest af því sem snýr að uppbyggingu samfélagsins og innviðum þess, svo sem mannvirkjagerð, umhverfis og skipulagsmálum, vega- og gatnagerð, lögnum og veitum og stjórnun framkvæmda, svo eitthvað sé nefnt. 

Hagnýtt nám

BSc-nám í byggingartæknifræði er 210 ECTS einingar og tekur þrjú og hálft ár. Uppbygging námsins tekur mið af þörfum atvinnulífsins, með áherslu á hagnýta tækniþekkingu sem nýtist vel frá fyrsta degi í starfi. Nemendur vinna raunhæf og krefjandi verkefni þar sem farið er í gegnum öll stig verkferlisins, frá frumhönnun og greiningu, að hönnun og teiknun, auk undirbúnings framkvæmda með gerð útboðsgagna, verk- og kostnaðaráætlana.

Fjölbreytt nám og sérhæfing

Á fyrstu misserum námsins eru kennd skyldunámskeið og tekist á við hinn fræðilega grunn sem nauðsynlegur er til að tryggja þá grunnþekkingu sem þarf við lausn tæknifræðilegra verkefna. Á síðari stigum byggja nemendur upp faglega sérhæfingu á þeim grunni. Sérhæfingarsviðin eru burðarvirki, framkvæmdir og lagnir. Náminu lýkur með stóru lokaverkefni á sérhæfingasviði sem að öllu jöfnu er unnið í samvinnu við fyrirtæki eða í tengslum við rannsóknarverkefni starfsmanna.  

Starfsnámið veitir forskot

Tækni- og verkfræðideild er með samninga við um 40 fyrirtæki og stofnanir og nemendum býðst að taka allt að 24 ECTS í starfsnámi. Stærri verkefni, eins og lokaverkefni í tæknifræði, eru oftast unnin í samvinnu við fyrirtæki og stofnanir. Margir nemendur hafa fengið tilboð um starf til lengri eða skemmri tíma í kjölfar starfsnáms og lokaverkefna sem unnin eru í samstarfi við fyrirtæki.

Markmið með starfsnámi er að auka þekkingu nemenda á því sviði sem þeir stunda nám á, búa þá undir störf að námi loknu og jafnframt að: 

  • efla tengsl nemenda tækni- og verkfræðideildar HR við atvinnulífið.
  • auka innsýn og skilning nemenda á viðfangsefnum viðkomandi fagsviðs.
  • að nemendur öðlist reynslu af því að vinna að úrlausn raunhæfra viðfangsefna á vettvangi, undir leiðsögn leiðbeinenda úr atvinnulífinu.
  • að nemendur beiti aðferðum tæknifræðinnar við lausn hagnýtra verkefna.
  • að nemendur geti unnið sjálfstætt og borið ábyrgð á eigin þekkingarleit og faglegum áherslum.
  • að nemendur tileinki sér sjálfstæð og markviss vinnubrögð við úrlausn raunhæfra hönnunar-, greiningar- og/eða rannsóknarverkefna á fagsviðinu.

Dæmi um fyrirtæki þar sem tæknifræðingar starfa og nemendur hafa farið í starfsnám:

Orka náttúrunnar • Mannvit • HB Grandi • HS Orka •Jáverk • Orkuveita Reykjavíkur • Ístak • VSÓ Ráðgjöf • Landsvirkjun • Össur • Marel • Síminn• Trefjar • VSB verkfræðistofa • Verkís • VHE vélaverkstæði • Efla • Landsnet • Norðurorka • Alcoa • Stálsmiðjan • Framtak • Elkem

Í hópi framsækinna tækniháskóla

HR tekur þátt í alþjóðlegu samstarfsneti framsækinna háskóla sem kenna tæknigreinar. Hugmyndafræðin er sú að verk- og tæknifræðingar framtíðarinnar fái traustan, fræðilegan grunn en vinni þar að auki raunhæf verkefni og læri að leysa verkefni í hópum. Nemendur kunna því á ferlið frá hugmynd yfir í hönnun, framkvæmd og rekstur þegar þeir koma á vinnumarkaðinn. Samstarfsnetið heitir CDIO , sem stendur fyrir „Conceive, Design, Implement, Operate“. Aðrir skólar í CDIO eru meðal annars:

MIT - Massachusetts Institute of Technology • DTU - Danmarks Tekniske Universitet • Chalmers Tekniska Högskola • KTH - Royal Institute of Technology • Aalborg University • Delft University of Technology  • University of Sydney • Beijing Jiaotong University

Strax á fyrstu önn kynnast nemendur hugmyndavinnu í hópum í námskeiðinu Inngangur að tæknifræði.  Færni í hugmyndavinnu, verkefnastjórnun, samskiptum og kynningum er síðan þjálfuð í ýmsum námskeiðum gegnum allt námið, með áherslu á hugmyndafræði CDIO.

Í lok hverrar annar vinna nemendur að hagnýtu, raunhæfu verkefni þar sem markmiðið er að undirbúa nemendur fyrir atvinnulífið. Hagnýtu verkefnin eru umfangsmikil, oftast hönnunarverkefni sem byggjast á því að nýta og samþætta þekkingu úr bóklegu námskeiðunum. 

Að námi loknu

Lögverndað starfsheiti

Byggingartæknifræðingar eru frá útskrift tilbúnir til að takast á við raunveruleg verkefni í sínu fagi. Þeir sem ljúka lokaprófi í tæknifræði (BSc) hljóta staðfestingu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og full réttindi til að starfa sem tæknifræðingar og nota lögverndaða starfsheitið tæknifræðingur (enska: Certified Engineer). Þeir sem ljúka BSc-námi í tæknifræði, eru með sveinsbréf og hafa lokið tilskyldum starfstíma fá jafnframt meistarabréf í tilsvarandi iðngrein.

Áhugaverður starfsvettvangur

Byggingartæknifræðingar fást við störf tengd mótun umhverfis og mannvirkjagerð framtíðarinnar. Í því felst meðal annars hönnun, framkvæmdastjórnun og rekstur mannvirkja. Einnig má nefna umsýslu fasteigna, störf í fagtengdri stjórnsýslu á vegum ríkis og sveitafélaga, stjórnun og eftirlit í verktaka- og framleiðslufyrirtækjum. Þeir fást einnig við umhverfismál, svo sem umhverfismat framkvæmda, endurvinnslu og förgun úrgangs og þróun á umhverfisvænum lausnum fyrir byggingariðnaðinn.

Hvað segja fulltrúar atvinnulífsins?

Jóhannes Benediktsson, tæknifræðingur og fagstjóri verkefnastjórnun hjá verkfræðistofunni EFLU:

„Það er mikil eftirspurn eftir byggingartæknifræðingum. Nýútskrifaðir byggingartæknifræðingar hafa reynst verðmætir starfsmenn EFLU frá fyrsta degi.“

Andri Þór Arinbjörnsson, byggingatæknifræðingur og framkvæmdastjóri Eignaumsýslusviðs Reita:

„Í mínu starfi þarf ég að takast á við verkefni sem snúa að öllu því sem viðkemur framkvæmdum, viðhaldi og rekstri fasteigna. Námið í byggingartæknifræðinni var frábær undirbúningur og hjálpaði mér mikið við að fóta mig í þessum fjölbreyttu verkefnum.“

Árni B. Björnsson, framkvæmdastjóri Tæknifræðingafélags Íslands:

„Tæknifræðingar eru eftirsóttir starfskraftar vegna hagnýtrar reynslu og faglegrar þekkingar. Á bak við tæknifræðinga stendur öflugt félag 1300 félagsmanna, Tæknifræðingafélag Íslands.“

Hvað segja nemendurnir?

Sigurður Halldór Örnólfsson, byggingartæknifræðingur frá HR 2015:

„BSc í byggingartæknifræði við HR var mjög góður undirbúningur fyrir framhaldsnám í byggingarverkfræði, og reyndist námið bæði skemmtilegt og krefjandi. Það gefur innsýn inn í þann gríðarlega fjölbreytta starfsvettvang sem býður byggingartæknifræðinga allt frá stjórnun smærri verka upp í heildarhönnun heilu flugvallanna.“

Aron Valur Leifsson, nemi í byggingartæknifræði:

„Ég valdi tæknifræðina því námið er frábær viðbót við iðnnám og veitir starfsréttindi eftir aðeins þrjú og hálft ár.“

Þekking og færni

Í lærdómsviðmiðum má sjá hvaða þekkingu, leikni og hæfni nemendur eiga að búa yfir að námi loknu.

Framhaldsnám

Tæknifræðinámið veitir góða undirstöðu fyrir framhaldsnám í verkfræði á tengdum sviðum innanlands sem erlendis.

Aðstaða

Þjónusta og góður aðbúnaður

Öll kennsla fer fram í háskólabyggingu HR. Þar er lesaðstaða og bókasafn, aðstaða til verklegrar kennslu, hópavinnuherbergi, mötuneyti, náms- og starfsráðgjöf og önnur þjónusta við nemendur.

Verkleg kennsla

Í HR er áhersla lögð á verkkunnáttu og þjálfun ásamt fræðilegri undirstöðu. Því er aðstaða til verklegrar kennslu til fyrirmyndar. 

Kennslustofur og lesherbergi

Húsnæði Háskólans í Reykjavík býður upp á afar góða aðstöðu til kennslu, lesturs og samvinnu nemenda. Kennslustofur eru vel búnar og nemendur geta nýtt sér hópavinnuherbergi. Almenn aðstaða er opin nemendum allan sólarhringinn. Sjá fleiri myndir af aðstöðunni í HR.

Góð þjónusta

Í háskólabyggingunni er greiður aðgangur að náms- og starfsráðgjöf, alþjóðaskrifstofu og tækniaðstoð. Á bókasafninu er góð og fjölbreytt vinnuaðstaða. Safnið býður aðgang að bókum og fræðigreinum og upplýsingafræðingar eru með opna tíma þar sem nemendur geta litið við og fengið ráðleggingar og aðstoð vegna heimildavinnu.

Verslanir og kaffihús

Í HR er Háskólabúðin sem selur nauðsynjavörur, Te og kaffi, æfingasalur World Class og Málið veitingasala. 

Kennarar

Vísindamenn og sérfræðingar

Nemendur í byggingartæknifræði njóta leiðsagnar öflugra vísindamanna á fagsviðinu, tæknimanna og hönnuða innan háskólans, og fjöldi stundakennara með sérfræðiþekkingu úr atvinnulífinu. Kennarar við HR eru að jafnaði í miklum samskiptum við nemendur og í góðum tengslum við atvinnulífið. Byggingartæknifræði heyrir undir byggingarsvið. 

Sviðsstjóri: Hera Grímsdóttir


Gestaprófessor

Kamal Henri Khayat

Doktorsnemar

Wassim Mansour

Skipulag náms BSc

Skipulag náms

Námstími: 3 1/2 ár í fullu námi. Einingar: 210 ECTS.

Námið er 30 ECTS einingar á önn. Öll námskeið eru 6 ECTS nema annað sé tekið fram.

1. önn

Stærðfræði I 

Eðlisfræði I

Burðarþolsfræði I 

Forritun í Matlab

Hugmyndavinna (1 ECTS)

Inngangur að tæknifræði og tölvustudd hönnun (5 ECTS)

2. önn

Stærðfræði II 

Burðarþolsfræði II 

Efnisfræði byggingarefna 

Tölfræði og aðferðafræði

Hagnýtt verkefni - hönnunarferlið*

3. önn

Stærðfræði III 

Burðarþolsfræði III 

Steinsteyputækni 
(4 ECTS)** 

Umhverfi, heilsa og öryggi (2 ECTS)**

Jarðtækni og hagnýt jarðfræði 

Verkefnastjórnun**

4. önn

Álag og öryggi burðarvirkja 
(4 ECTS) 
Brunatæknileg hönnun 
(2 ECTS)

Tré- og stálvirki I 

Rennslisfræði

Byggingareðlisfræði**

Landmælingar og landupplýsingakerfi*

 

5. önn

Steinsteypuvirki I 

Vegagerð I**

Rekstur, stjórnun og nýsköpun

Starfsnám I

Umhverfi og vistvæn byggð**

6. önn - Skyldufög  

Jarðtækni og grundun** 

Lagnahönnun 

Hagnýtt verkefni 

Valfög í sérhæfingu

Sveiflugreining burðarvirkja

Tré- og stálvirki II 

Steinsteypuvirki II 

Vega- og gatnagerð II 

Framkvæmdafræði

Vatns- og fráveitur

Starfsnám II og III

7. önn

Lokaverkefni
(24 ECTS) 

Valfag

* Þessi námskeið eru kennd fyrir tvo árganga saman og nemendur taka þau ýmist á 1. eða 2. námsári, sjá nánar í námsáætlun hvers árgangs.

** Þessi námskeið eru kennd fyrir tvo árganga saman og nemendur taka þau ýmist á 2. eða 3. námsári, sjá nánar í námsáætlun hvers árgangs.

Sérhæfingarsvið

Á 6. og 7. önn önn taka nemendur valfög sem bjóða upp á sérhæfingu í burðarvirkjahönnun, framkvæmdum eða lagnahönnun og á 7. önn vinna þeir lokaverkefni. Sérhæfingarsviðs er getið á prófskírteini hafi nemandi lokið a.m.k. 3 sérhæfðum valnámskeiðum ásamt lokaverkefni á sviðinu 

Nánari upplýsingar um tilhögun náms

Inntökuskilyrði

Til að hefja nám í tæknifræði þurfa umsækjendur að hafa lokið stúdentsprófi, frumgreinaprófi, 4. stigs vélstjórnarprófi eða sambærilegu prófi. 

Undirbúningur

Námsefni og kennsla á fyrsta ári í tæknifræði er miðuð við að nemendur hafi eftirfarandi undirbúning:  

  • Stærðfræði - 18 einingar (þ.m.t. stæ 503 eða sambærilegt) eða 25 fein, þar af 15 fein á 3. hæfniþrepi*.  Nemandi þarf að þekkja diffrun, heildun og helstu heildunaraðferðir (t.d. innsetningaraðferð og hlutheildun).
  • Eðlisfræði - 6 einingar (þ.m.t. eðl 203 eða sambærilegt) eða 10 fein, þar af 5 fein á 3. hæfniþrepi*.  Nemandi þarf að þekkja hreyfi- og aflfræði og rafmagnsfræði (rásir, rafsvið og segulfræði). Æskilegt er að hann þekki einnig varmafræði, vökva og þrýsting, bylgjur og ljós.

* skilgreining mennta- og menningarmálaráðuneytisins á hæfniþrepum

Vantar þig grunninn? Byrjaðu strax í HR

Þeim nemendum sem vilja hefja nám í byggingartæknifræði en vantar nauðsynlegan undirbúning, til dæmis í stærðfræði og eðlisfræði, er bent á frumgreinanám HR sem er undirbúningsnám fyrir háskóla. Þar er hægt að velja strax háskólagrunn fyrir tæknigreinar. Nám til frumgreinaprófs tekur eitt ár. 

Frekari upplýsingar 

Áhugasamir eru hvattir til að hafa samband og þiggja einstaklingsráðgjöf. Hver nemandi er metinn sérstaklega.

Vilborg Hrönn Jónudóttir
Netfang: vilborg@ru.is 
Sími: 599-6255


Fara á umsóknarvef

Var efnið hjálplegt? Nei