Starfsreglur

Skipulags- og starfsreglur fyrir Háskólann í Reykjavík

1. Hlutverk

Háskólinn í Reykjavík (HR) er háskólastofnun sem sinnir æðri menntun, rannsóknum og tengdum verkefnum. Hlutverk HR er að skapa og miðla þekkingu til að auka samkeppnishæfni og lífsgæði fyrir einstaklinga og samfélag með siðgæði, sjálfbærni og ábyrgð að leiðarljósi.

Starfsemi HR er ekki ætlað að skila hagnaði til eigenda eða bakhjarla háskólans. Allur rekstarafgangur er nýttur til að byggja upp og styrkja starfsemina.

HR sinnir menntun á öllum stigum háskólanáms, aðfaranámi samkvæmt grein 19. grein laga 63/2006 og faglegri endurmenntun fyrir sérfræðinga. Allt háskólanám við HR skal hafa viðurkenningu mennta- og menningarmálaráðuneytisins samkvæmt lögum 63/2006.

2. Stjórnskipulag

2.1 Háskólaráð

Háskólaráð er vettvangur umræðna um stefnumótun háskólans um nám, kennslu og rannsóknir, sem og um tengsl háskólans og atvinnulífsins. Háskólaráð HR markar meginstefnu skólans í samráði við stjórn HR. Háskólaráð ber jafnframt ábyrgð á endurskoðun skipulags- og starfsreglna HR, ákveður stofnun nýrra deilda að tillögu stjórnar HR og ákvarðar meginstarfstilhögun háskólans. Háskólaráð skal hafa eftirlit með að innra gæðastarfi skólans sé vel sinnt, m.a. skal háskólaráð fjalla um niðurstöður innra mats a.m.k. árlega og ytri úttektir eftir því sem við á.

Háskólaráð HR heldur fundi 2-3 sinnum á ári en fundir eru boðaðir af formanni háskólaráðs sem jafnframt er formaður stjórnar HR. Í háskólaráði sitja 10 fastafulltrúar sem skipaðir eru af eigendum háskólans á aðalfundi, alla jafna til tveggja ára í senn. Nánar er kveðið á um skipan háskólaráðs í hluthafasamkomulagi.

Leitast skal við að í háskólaráði sitji formlegir fulltrúar eigenda skólans, fulltrúar atvinnulífs, akademíu og stjórnsýslu. Háskólaráðsmenn skulu ekki sitja lengur en átta ár samfellt. Rektor situr fundi háskólaráðs og annast undirbúning þeirra í samráði við formann. Deildarforsetar HR og formaður stúdentafélags HR sitja einnig almennt fundi ráðsins.

2.2 Stjórn

Stjórn HR skal skipuð fimm aðalmönnum og einum til vara, kjörnum á aðalfundi til tveggja ára senn. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum. Nánar er kveðið á um skipan stjórnar í hluthafasamkomulagi.

Stjórnin ræður rektor HR og ákveður starfskjör hans. Hún veitir og prókúruumboð fyrir félagið. Rektor situr stjórnarfundi. Stjórnin sinnir almennum stjórnarstörfum eins og á við um stjórnir fyrirtækja og ber ábyrgð á stefnumótun, stjórnskipulagi, fjármálum, þar með ákvörðun skólagjalda, og almennum rekstri. Stjórnin skal setja sér starfsreglur þar sem nánar skal kveðið á um framkvæmd starfa hennar.

Stjórn staðfestir rekstrar- og fjárfestingaráætlun fyrir háskólann og ársreikning hans.

2.3 Rektor

Um ráðningu rektors er fjallað í grein 2.2.

Rektor kemur fram fyrir hönd háskólans, annast daglegan rekstur og ber ábyrgð á rekstrinum gagnvart stjórn. Daglegur rekstur tekur ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða meiriháttar. Slíkar ráðstafanir getur rektor aðeins gert samkvæmt sérstakri heimild frá stjórn HR, nema ekki sé unnt að bíða ákvarðana stjórnar án verulegs óhagræðis fyrir starfsemi háskólans. Í slíkum tilvikum skal stjórn tafarlaust tilkynnt um ráðstöfunina.

Rektor leggur árlega fram fjárhagsáætlun HR fyrir stjórn til staðfestingar. Rektor kynnir fyrir stjórn og háskólaráði niðurstöður innra gæðamats og jafnframt niðurstöður ytra mats þegar það á við. Rektor ber ábyrgð á gæðum starfsemi HR og framkvæmd innra mats. Hann ber jafnframt ábyrgð á að árlega sé gefin út skýrsla um starfsemi háskólans.

Rektor ræður forseta deilda, framkvæmdastjóra og aðra starfmenn háskólans sem heyra beint undir rektor, en hann hefur samráð við stjórn um val þeirra og megin verkefni.

Rektor skal halda starfsmannafundi að minnsta kosti einu sinni á önn þar sem starfsfólk er upplýst um stöðu skólans, stefnu og áherslur rektors og stjórnar skólans.

Rektor skal árlega halda opinn ársfund Háskólans í Reykjavík þar sem fjárhagur háskólans og meginatriði starfsáætlunar eru kynnt.

2.4 Framkvæmdastjórn

Framkvæmdastjórn HR skal skipuð rektor sem er formaður framkvæmdastjórnar, forsetum deilda, framkvæmdastjórum og öðrum lykilstarfsmönnum samkvæmt ákvörðun rektors. Fulltrúi nemenda skal sitja fundi framkvæmdastjórnar og hefur hann bæði tillögurétt og málfrelsi. Heimilt er að fulltrúi nemenda víki af fundi óski framkvæmdastjórn þess.

Framkvæmdastjórn skal fjalla um reglur og önnur stefnumótandi skjöl og taka til afgreiðslu. Framkvæmdastjórn skal ennfremur fjalla um rekstraráætlun háskólans, árlegar skýrslur um rekstur deilda og niðurstöður innra mats.

Rektor skal setja framkvæmdastjórn reglur þar sem kveðið skal á um hlutverk hennar og starfshætti.

2.5 Deildir

2.5.1 Forsetar deilda

Forseti deildar er ráðinn af rektor með hliðsjón af umsögn matsnefndar.

Forseti deildar fer með faglega stjórn deildar og skal eiga frumkvæði að mótun stefnu fyrir deildina. Hann ber ábyrgð á rekstri og fjárhag deildarinnar gagnvart rektor.

Forseti deildar ber meðal annars ábyrgð á:

 • Stjórnskipulagi deildar samkvæmt stefnu skólans og skal tryggja þátt akademískra starfsmanna og nemenda í stjórnun hennar.
 • Gerð og birtingu skipulags- og starfsreglna deildar.
 • Gerð fjárhagsáætlunar fyrir viðkomandi deild sem lögð skal fram til afgreiðslu í framkvæmdastjórn HR sem hluti af heildarfjárhagsáætlun háskólans.
 • Stjórnun deildar og eftirfylgni við fjárhagsáætlun.
 • Upplýsingagjöf til starfsmanna og nemenda deildarinnar.
 • Ráðningu fastra starfsmanna við deildina.
 • Samningsgerð við stundakennara og aðra lausráðna starfsmenn deildarinnar.
 • Tengslum skipulags námsbrauta við viðmið um æðri menntun og prófgráður.
 • Reglulegri endurskoðun og uppfærslu námsbrauta með hliðsjón af þörfum atvinnulífs og þróun sambærilegs náms erlendis.
 • Gerð og birtingu kennsluskrár deildar.
 • Skipulagi og framkvæmd árlegs innra gæðamats deildarinnar.
 • Skipulagi og þátttöku deildar í ytra mati í samræmi við viðmið Gæðaráðs háskólanna.
 • Mótun framtíðarsýnar og stefnu deildar

Forseti deildar skal kalla til deildarfunda alla fastráðna starfsmenn sem sinna rannsóknum og/eða kennslu við deildina að minnsta kosti tvisvar á önn. Á deildarfundum er öllum heimilt að taka upp mál sem varða stjórnskipan og stjórnun deildarinnar og önnur mál er varða deildina í heild.

Forseti deildar getur ráðið starfsmenn deildar við stjórnun deildar, s.s. forstöðumann námsbrautar, sviðstjórn á námsviði o.s.frv.

Skrifstofur deilda sjá um almenna umsýslu kennslu og náms á vegum deildar ásamt öðrum verkefnum sem til þeirra er vísað af stjórnendum skólans.

2.5.2. Ráð deilda

Skipulag deilda skal verða skýrt og sýnilegt í skipulags- og starfsreglum deildar.

Við hverja deild skulu starfa deildarráð, námsráð (eitt eða fleiri) og rannsóknaráð. Ráð deilda eru skipuð af deildarforseta.

Deildarráð: Forseti deildar og formenn rannsóknaráðs og námsráðs deildar sitja í deildarráði. Að öðru leyti ákveður deildarforseti hvernig deildarráð er skipað. Hlutverk deildarráðs er að fjalla um málefni er varða stjórnun deildarinnar sem og allar veigameiri ákvarðanir sem varða kennslu og rannsóknir og gerir tillögur að breytingum á reglum deildarinnar.

Námsráð deilda taka þátt í uppbyggingu kennslu og eru ráðgefandi fyrir forseta deildar hvað varðar þróun námsins, þar með talið þróun lærdómsviðmiða fyrir námskeið og námsbrautir eftir því sem við á. Námsráð deildar geta verið eitt eða fleiri. Viðeigandi námsráð tekur kennsluskrá hverrar námsbrautar til umfjöllunar árlega og samþykktar, með þátttöku nemenda. Einnig koma ráðin að framkvæmd innra mats og eftirfylgni á grundvelli niðurstaðna innra og ytra mats, einnig með þátttöku nemenda. Námsráð skipa fastir starfsmenn deildarinnar sem skipaðir eru af deildarforseta til tveggja ára í senn. Formaður eða formenn námsráðs/-ráða deildar eru skipaðir af deildarforseta.

Rannsóknaráð deildar skal vera deildarforseta til ráðgjafar við gerð rannsóknaráætlunar deildar og styðja framgang áætlunarinnar. Rannsóknarráð skal taka virkan þátt í innra og ytra mati tengdu rannsóknum. Rannsóknaráð skal styðja við skipulag og framkvæmd doktorsnáms við deildina. Rannsóknaráð skipa fastir starfsmenn deildarinnar sem skipaðir eru af deildarforseta til tveggja ára í senn. Formaður rannsóknarráðs deildar er skipaður af deildarforseta.

2.6 Framkvæmdastjórar og stoðþjónusta

Framkvæmdastjórar HR eru ráðnir af rektor. Framkvæmdastjórar bera ábyrgð á skipulagi og rekstri stoðþjónustu HR og sinna skilgreindum hlutverkum samkvæmt ákvörðun rektors. Meðal viðfangsefna stoðþjónustu eru stuðningur við innra gæðastarf, kennslustörf, rannsóknir, mannauð, fasteignir, fjármál, þjónustu og samskipti. Rektor skilgreinir hlutverk og verkefni stoðsviða í samræmi við þarfir háskólans á hverjum tíma.

Framkvæmdastjórar ráða, þegar við á, forstöðumenn sinna stoðsviða í samræmi við verksvið þeirra. Forstöðumenn stoðsviða bera ábyrgð á framgangi verkefna á þeirra verksviðum.

2.7. Námsráð háskólans

Námsráð háskólans skipa fulltrúar námsráða deilda auk formanns sem skipaður er af rektor til tveggja ára í senn. Í námsráði situr einnig fulltrúi frumgreinanáms. Fulltrúi kennslusviðs er ritari ráðsins. Fulltrúi nemenda skipaður af Stúdentafélagi HR situr fundi námsráðs með málfrelsi og tillögurétt. Heimilt er að fulltrúi nemanda víki af fund óski námsráð þess.

Námsráð fjallar um málefni sem tengjast námi og kennslu við HR.

Námsráð skal viðhalda og endurskoða kennslustefnu háskólans og vera rektor og framkvæmdastjórn til ráðgjafar í málefnum er lúta að kennslu auk þess að vera stefnumarkandi í gæða og úttektarmálum.

Námsráð fær til umsagnar:

 • allar umsóknir skólans um viðurkenningar á nýjum fræðasviðum eða námsleiðum
 • skýrslur sem tengjast innra og ytra gæðakerfi háskólans
 • nýjar reglur og breytingar á reglum sem tengjast kennslu og/eða mannauð skólans

Nánar er fjallað um starfssvið námsráðs skóla skipunarskjali námsráðs skóla gefið út af rektor og samþykkt af framkvæmdastjórn.

2.8. Rannsóknarráð háskólans

Rannsóknarráð háskólans skipa fulltrúar rannsóknaráða deilda auk formanns sem skipaður er af rektor til tveggja ára í senn. Fulltrúi rannsóknarþjónustu er ritari ráðsins. Fulltrúi nemenda skipaður af Stúdentafélagi HR situr fundi rannsóknarráðs með málfrelsi og tillögurétt. Heimilt er að fulltrúi nemenda víki af fundi óski rannsóknarráð þess.

 • Rannsóknarráð fjallar um málefni sem tengjast rannsóknum við HR.
 • Rannsóknarráð HR viðheldur stefnu skólans á sviði rannsókna og hvetur til enn frekari uppbyggingar rannsóknarstarfs við skólann.
 • Rannsóknarráð fær til umsagnar erindi er varða rannsóknir og uppbyggingu rannsóknarmenningar við HR.
 • Rannsóknarráð tekur virkan þátt í innra og ytra mati skólans.

Nánar er fjallað um starfssvið rannsóknarráðs í skipunarskjali rannsóknarráðs gefnu út af rektor og samþykktu af framkvæmdastjórn.

2.9 Siðanefnd

Í siðanefnd háskólans sitja 6 fulltrúar, skipaðir af rektor: Formaður frá stoðsviðum háskólans, einn fulltrúi akademískra starfsmanna úr hverri deild og einn fulltrúi nemenda, skipaður af Stúdentafélagi HR.

Hlutverk siðanefndar háskólans er að taka til skoðunar ábendingar um brot á siðareglunum og taka afstöðu til þess hvort um brot á siðareglum er að ræða og um grófleika brots. Siðanefnd HR starfar samkvæmt skipan og starfsreglum siðanefndar sem samþykktar eru af rektor og framkvæmdastjórn HR.

3. Akademískir starfsmenn

Starfsmenn sem sinna kennslu eða rannsóknum nefnast akademískir starfsmenn. Eftirfarandi stöðuheiti eru nýtt um akademíska starfsmenn:

 • Prófessor
 • Dósent
 • Lektor
 • Atvinnulífsprófessor er einstaklingur sem verið hefur leiðandi í atvinnulífinu á sínu sérsviði, er þekktur af verkum sínum og viðurkenndur sem áhrifavaldur á vinnubrögð í faginu. Hann skal einnig hafa sýnt fram á ótvíræða hæfni til kennslu og miðlunar á háskólastigi.
 • Sérfræðingur er fastur starfsmaður sem sinnir einkum rannsóknum.
 • Aðjúnkt er fastur starfsmaður í hlutastarfi eða fullu starfi sem sinnir einkum kennslu.
 • Stundakennari er lausráðinn starfsmaður í hlutastarfi við kennslu.
 • Nýdoktor er nýútskrifaður doktor sem ráðinn er tímabundið til að sinna rannsóknum og mögulega kennslu

Til þess að hljóta stöðu lektors, dósents eða prófessors þarf að liggja fyrir mat á hæfi viðkomandi. Fjallað er um viðmið, hæfismat og nýráðningar í framgangsstöður í Reglum um ráðningar og framgang. Þær reglur skulu lagðar fram af rektor til umsagnar bæði í námsráði og rannsóknaráði og til samþykktar framkvæmdastjórnar. Deildum er heimilt að setja sér nánari framgangsreglur.

Um stöðu atvinnulífsprófessors gilda sérstakar reglur um nýráðningar og hæfismat. Forseti deildar tekur ákvörðun um ráðningar og starfsheiti fyrir aðrar akaemískar stöður eftir því sem við á.

4. Námsleiðir, kennsla, námsmat og inntökuskilyrði

4.1 Námsleiðir

Námsleiðir skólans skulu skilgreindar í samræmi við þau fyrirmæli sem fram koma í lögum um háskóla nr. 63/2006 og auglýsingu nr. 530/2011 um útgáfu á viðmiðum um æðri menntun og prófgráður.

Forseti deildar leggur tillögu um nýtt nám og/eða námsleiðir fyrir framkvæmdastjórn til kynningar og rektor til samþykktar eftir umfjöllun og umsögn námsráða og rannsóknarráða deildar og skóla.

Um framsetningu tillaga að nýjum námsbrautum skal fara eftir reglum um samþykki nýrra námsbrauta samþykktum af framkvæmdastjórn.

4.2 Nám og kennsla

Kennsla við HR fer fram á skilgreindum námsbrautum sem byggðar eru upp á námskeiðum sem metin eru til eininga og skipulögð í samræmi viðmiðum um æðri menntun og prófgráður nr. 530/2011.

Fullt nám telst 60 einingar (ECTS) á námsári að jafnaði og endurspeglar það alla námsvinnu nemanda, viðveru og próf.

Kennsluhættir skulu að jafnaði vera fjölbreyttir og taka mið af lærdómsviðmiðum námskeiðs og námsbrautar.

Námsmat skal að jafnaði vera fjölbreytt og taka mið af lærdómsviðmiðum hvers námskeiðs. Viðmið um kennsluhætti og námsmat skulu nánar útfærð í gæðahandbók HR og kennslustefnu skólans. Að auki skulu liggja fyrir sérstakar náms- og prófareglur þar sem fjallað er um vinnu nemenda og þætti tengda prófum. 

4.3 Inntökuskilyrði

Reglur um inntökuskilyrði eru í samræmi við 19. gr. laga nr. 63/2006 um háskóla. Deild er heimilt að ákveða sérstök viðbótarskilyrði sem skilgreind eru sem aðgangsviðmið deildar og birtar sem slíkar á vef deildar, ásamt því að halda inntöku- eða stöðupróf. Deild er einnig heimilt að víkja frá skilyrði um stúdentsprófi eða jafngilt próf enda búi nemandi yfir jafngildum þroska eða þekkingu að mati deildar. Deild getur ákveðið að nám sem nemandi hefur stundað utan deildarinnar, þ.m.t. við aðra innlenda eða erlenda háskóla, sé metið til eininga eftir nánari reglum deildar. HR skal gæta samræmis og jafnræðis við afgreiðslu umsókna.

5. Réttindi og skyldur nemenda

HR hefur málefnalega stjórnsýslu að leiðarljósi í samskiptum við nemendur. Við ákvarðanir sem varða réttindi og skyldur nemenda skal eftir því sem við á gæta meginreglna stjórnsýsluréttar og góðra stjórnsýsluhátta.

5.1 Nám

Um inntöku nemenda skal gilda 19. gr. laga um háskóla nr. 63/2006, og fjallað frekar um í gr. 4.3 í skipulags- og starfsreglum þessum.

Nemendur skulu vinna að eigin námi af heilum hug. Þeir skulu fylgja náms- og prófareglum HR, siðareglum HR, og öðrum þeim reglum sem kunna að eiga við um hverja námsleið.

Nemendur við HR njóta réttinda skv. reglum um áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema nr. 1152/2006. Nánar er fjallað um réttindi nemenda til að mótmæla niðurstöðum námsmats í náms- og prófareglum HR.

Forsetar deilda hafa æðsta ákvörðunarvald í öðrum málum sem varða réttindi og skyldur nemenda. Málsmeðferð slíkra mála fer eftir náms- og prófareglum og reglum um skipan og starfssviðs siðanefndar.

5.2 Stjórnun

Nemendur HR skulu eiga fulltrúa í háskólaráði, framkvæmdastjórn, náms- og rannsóknarráðum skólans og skulu þeir hafa í það minnsta málfrelsi og tillögurétt.

Nemendur HR skulu eiga fulltrúa á deildarfundum og skulu þeir hafa í það minnsta málfrelsi og tillögurétt.

Fulltrúar nemenda skulu ávallt vinna af heilum hug að langtímahagsmunum nemenda og uppbyggingu HR.

6. Almenn ákvæði

Skipulags- og starfsreglur þessar  eru settar á grundvelli laga nr. 63/2006 um háskóla og öðlast gildi við staðfestingu háskólaráðs.

Skipulags- og starfsreglur HR skulu settar í samræmi við samþykktir Háskólans í Reykjavík ehf.

Endurskoða skal skipulags- og starfsreglur HR á a.m.k. þriggja ára fresti. Við endurskoðunina skal tekið mið af því mati sem fram hefur farið á stafsemi skólans og þeim breytingum sem stjórnvöld leggja til um fyrirkomulag háskólamenntunar.

  


Var efnið hjálplegt? Nei