Námið
Rannsóknir
HR

Nemendur

Starfsnám og nemendaverkefni

Yfir 3500 nemendur afla sér þekkingar á sviði tækni, viðskipta, íþrótta, sálfræði og laga við HR á hverju ári. Þessir nemendur hafa ferska sýn og brennandi áhuga á að nýta þekkingu sína og vinna að raunhæfum verkefnum.

Algengasta leiðin til samstarfs við nemendur er í gegnum starfsnám og nemendaverkefni. Þannig njóta fyrirtæki og stofnanir góðs af nýjustu þekkingu og rannsóknum sem stuðlar að nýsköpun og verðmætasköpun. Nemendur öðlast dýrmæta reynslu sem nýtist þeim á vinnumarkaðnum að loknu námi.

Fyrirtæki og stofnanir eiga kost á að vinna verkefni með nemendum á öllum námsstigum. Stærð verkefna getur verið allt frá stuttum námskeiðum á grunnstigi náms til lokaverkefnis á meistarastigi. Fyrirtæki geta einnig unnið að sameiginlegu doktorsverkefni með nemanda (Industry PhD). 

Hvert á að leita?
Sigurbjörg Ásta Hreinsdóttir
Skrifstofustjóri tölvunarfræðideildar
Sigrún Þorgeirsdóttir
Skrifstofustjóri verkfræðideildar
Hrund Steingrímsdóttir
Skrifstofustjóri viðskiptadeildar
Benedikta G. Kristjánsdóttir
Skrifstofustjóri lögfræðideildar
Súsanna María B Helgadóttir
Skrifstofustjóri iðn- og tæknifræðideildar
Hildur Droplaug Pálsdóttir
Verkefnastjóri hjá sálfræðideild
Sjá fleiri kennara

Starfsnám - dýrmæt þjálfun

Starfsnám á vegum Háskólans í Reykjavík er mjög mikilvægur hluti af náminu. Allar deildir háskólans bjóða upp á starfsnám, ýmist í grunnnámi eða meistaranámi eða á báðum stigum. Í starfsnámi fá nemendur dýrmæta þjálfun í að beita fræðilegri þekkingu á raunveruleg viðfangsefni í atvinnulífinu, undir leiðsögn færustu sérfræðinga.

HR er í samstarfi við fjölda íslenskra og erlendra fyrirtækja og stofnana til þess að tryggja að námið sé í takt við þarfir atvinnulífs og samfélags hverju sinni og til að undirbúa nemendur sem best fyrir þátttöku í atvinnulífinu og gera þá eftirsóknarverðari starfskrafta þegar þeir útskrifast.

Til þess að ná því markmiði vinna nemendur raunhæf verkefni í samstarfi við fyrirtæki, fara í starfsnám á vinnustaði og fá kennslu frá sérfræðingum úr atvinnulífinu. Kannanir sem HR gerir á meðal útskriftarnemenda sinna sýna að þessi nálgun háskólans skilar sér, en 80-90% útskriftarnema Háskólans í Reykjavík eru komnir með vinnu áður en þeir útskrifast. 

Reglur um starfsnám

Um starfsnámið gilda fastmótaðar reglur sem miða að því að tryggja gæði námsins. Nemendur í starfsnámi hafa leiðbeinendur frá háskólanum og frá viðkomandi fyrirtæki og skila reglulegum framgangsskýrslum. Fjöldi eininga sem nemendur fá fyrir starfsnámið er í samræmi við lengd og umfang þess en sex eininga starfsnám samsvarar 120 tíma námi. Starfsnám við HR er oftast 6 - 14 einingar og er tekið samhliða öðrum námskeiðum. Almennt getur hver nemandi aðeins tekið starfsnám einu sinni í námi sínu.

Nemendur velja starfsnám

Frumkvæði að starfsnámi liggur hjá nemendum sem velja sér starfsnám á sama hátt og önnur námskeið við HR. Starfsnámið er skipulagt af háskólanum í samstarfi við fyrirtæki og stofnanir sem hafa gerst formlegir samstarfsaðilar háskólans og vinna með háskólanum á þennan hátt til að auka gæði námsins og efla þekkingu og hæfni nemenda. Nemendum sem hafa áhuga á starfsnámi er bent á að leita frekari upplýsinga um námið hjá skrifstofu sinnar deildar. 

Einnig eru upplýsingar um starfsnám í boði birtar á síðunni "Störf og starfsnám" á vef HR.

HigherED
Alþjóðleg starfs-, starfsnáms- og starfsþjálfunargátt

Háskólinn í Reykjavík er þátttakandi í EFMD-samstarfsnetinu og getur því boðið nemendum sínum aðgang að HigherEd-gáttinni. HigherEd er viðbót við þau úrræði sem þegar standa nemendum HR til boða. 

Íslenskir nemendur sem vilja öðlast reynslu á alþjóðlegum vettvangi geta notað HigherEd og eins erlendir nemendur sem eru að leita að störfum í sínu heimalandi. Í HigherEd má finna starfsnám, starfsþjálfun, lærlingsstöður og námsstöður út um allan heim.

Umsækjendur um störf hjá fyrirtækjum geta þurft að fara í viðtöl og ljúka mati og prófum. Það er því kostur að geta séð sjálfan sig með augum vinnuveitandans. Flest stærri fyrirtæki nýta sér mat á netinu þegar ráðnir eru nýir starfsmenn. Tekið er tillit til þessa í HigherEd þar sem hver og einn fær skýrslu sem er 17 síður að lengd og er byggð á niðurstöðu prófs. Þessi skýrsla er til persónulegra nota og henni er ekki deilt með háskólum eða fyrirtækjum. Með skýrslunni sér notandinn styrkleika sína og veikleika. 

Til að komast inn í gáttina þarf að virkja aðgang og skrá sig inn með lykilorði.

Framadagar AIESEC

Framadagar AIESEC eru haldnir árlega í HR með það að markmiði að gefa háskólanemum tækifæri til að kynna sér fyrirtæki og fjölbreytta möguleika á sumarstörfum, framtíðarstörfum eða verkefnavinnu.

Framadagar AIESEC eru einnig góð leið fyrir fyrirtæki að hitta tilvonandi framtíðarstarfsmenn. Viðburðurinn er gríðarlega vel sóttur.

Vitinn
Hugmyndasamkeppni sjávarútvegsins og HR

Vitinn er hugmyndasamkeppni sjávarútvegsins fyrir nemendur HR þar sem þeir þróa og útfæra lausnir fyrir fyrirtæki í greininni.

Þátttaka í Vitanum krefst ekki sérstakrar kunnáttu, eða þekkingar á sjávarútvegi, heldur einungis skapandi hugsunar og góðrar samvinnu. Vitinn, sem hét áður Hnakkaþon, er samstarfsverkefni Háskólans í Reykjavík og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og hefur verið haldin árlega síðan 2015. Keppnin er opin öllum nemendum HR.

Keppnin stendur yfir í þrjá daga. Lið vinna saman og setja fram hugmynd á laugardeginum. Meðan á vinnunni stendur fá keppendur leiðsögn frá sérfræðingum í atvinnulífinu. Keppendur fá áskorun afhenta með tölvupósti þegar skráningarfrestur keppninnar rennur út, á miðnætti miðvikudaginn 22. janúar.

Sigurvegarar Vitans fara fyrir hönd HR á sjávarútvegssýninguna í Boston þar sem þeirra bíður dagskrá skipulögð í samráði við sendiráð Bandaríkjanna á Íslandi.

Af hverju að taka þátt?
  • Leystu verkefni fyrir alvöru fyrirtæki
  • Þróaðu og settu fram hugmynd á þremur dögum
  • Kynntu hugmynd fyrir dómnefnd
  • Nýttu þér leiðsögn sérfræðinga úr atvinnulífinu
  • Fáðu útrás fyrir sköpunargleðina
  • Settu þetta „extra“ á ferilskrána þína
  • Farðu í fjögurra daga ferð til Boston – án þess að þurfa að borga flug og hótel
Liðin

Allt að fimm þátttakendur geta verið saman í liði og er skilyrði að lið séu kynjablönduð. Lið geta skráð sig til leiks fyrir miðnætti, miðvikudaginn 18. janúar.

Ertu með spurningu?

Frekari upplýsingar veitir Katrín Sif Oddgeirsdóttir, verkefnastjóri: katrinso@ru.is

Keppnir fyrri ára

Í byrjun hvers Hnakkaþons er áskorun lögð fyrir liðin. Alls hafa verið haldnar fjórar Hnakkaþonskeppnir í HR og í hvert skipti hafa keppendur þurft að takast á við mismunandi úrlausnarefni. Hér er hægt að lesa um áskoranir fyrri ára, viðtöl við vinningslið og horfa á myndbönd sem gefa innsýn í það hvernig er að taka þátt í Hnakkaþoninu.

Fara efst