Rekstrarverkfræði MSc

Nútímastjórnendur þurfa að geta tekið ákvarðanir varðandi rekstur, nýsköpunarverkefni og flókin alþjóðleg viðskipti. Í rekstrarverkfræði er hefðbundinni verkfræði og rekstrarfræði blandað saman til að undirbúa fólk fyrir slík störf.

Um námið

Nemendur og kennarar segja frá námi í rekstrarverkfræði við HR. 

Þekking og færni 

Rekstrarverkfræði veitir nemendum fræðilegan grunn og þjálfun fyrir fjölbreytileg störf í fyrirtækjum svo sem við framleiðslustjórnun, gæðastjórnun og verkefnastjórnun. Í verkfræðinámi læra nemendur að greina flókin og fjölbreytt viðfangsefni og þróa lausnir sem byggja á stærðfræði- og raunvísindaþekkingu. Meistaranám í verkfræði er tveggja ára námi.

Margvísleg viðfangsefni í vali

Val í meistaranámi

Í meistaranámi er hægt að velja áherslu á stjórnun eða aðgerðagreiningu.

Lifandi nám

Nemendur í rekstrarverkfræði hljóta fræðilega undirstöðu og þurfa að nota þá þekkingu til að leysa raunveruleg verkefni af ýmsum toga. Með því að glíma við raunhæf verkefni og finna lausnir við vandamálum hljóta nemendur góðan undirbúning fyrir störf að námi loknu. Hér eru nokkur dæmi um það hvernig kennslan og námsefnið miðar að því að veita nemendum dýrmæta reynslu.

12+3 kerfið

Í náminu eru annirnar brotnar upp í tvo hluta. Fjögur námskeið eru kennd í 12 vikur og síðan er prófað úr þeim. Að prófum loknum taka við þriggja vikna námskeið þar sem námsefnið er sett í hagnýtt samhengi með verkefnavinnu, hópavinnu og/eða samstarfi við fyrirtæki.

Starfsnám

Nemendur geta sótt um starfsnám, en þannig auka þeir þekkingu sína á viðfangsefnum verkfræðinnar og öðlast góðan undirbúning fyrir störf að námi loknu. Starfsnám er í boði á vorönn, á lokaári BSc náms eða á fyrra ári MSc náms, og getur verið allt að 12 einingar.

Dæmi um fyrirtæki og stofnanir sem hafa tekið við nemendum í starfsnám:

• Actavis • Arion banki • Arion banki • Blóðbankinn • deCode • EFLA • Elkem • Fjármálaráðuneytið • Hjartavernd • HS Orka • Íslandsbanki • ÍSOR • Ikea • Landsbankinn • Landsnet • Landspítalinn • Landsvirkjun • Mannvit • Marel • Marorka • Olís • Orka náttúrunnar • Orkuveitan • Raförninn • Samey • Samskip • Securitas • Síminn • Sjóvá • Verkís • Vodafone • VSÓ ráðgjöf • Össur

CDIO-samstarfsnetið

Færni í hugmyndavinnu, verkefnastjórnun, samskiptum og kynningum er þjálfuð í ýmsum námskeiðum gegnum allt námið. Þetta samræmist hugmyndafræði CDIO, sem er samstarfsnet framsækinna háskóla sem kenna tæknigreinar og HR er þátttakandi í.

Í CDIO-aðferðafræðinni er lögð áhersla á samráð háskóla og atvinnulífs og fagfélaga. Mótun námsbrauta í anda CDIO á að tryggja að nemendur fái lausnamiðaða verkfræðilega færni sem vinnuveitendur sækjast eftir, án þess að slegið sé af fræðilegum kröfum.

Lesa meira um CDIO - Conceive, Design, Implement, Operate

Undirbúningur fyrir atvinnulífið

Allir nemendur á 3. ári BSc náms taka námskeiðið Verkfræði X sem er umfangsmikið 15 vikna námskeið þar sem nemendur þróa lausn á raunverulegu vandamáli fyrir samstarfsaðila.

Í námskeiðinu læra nemendur formlegar aðferðir til að greina þarfir samstarfsaðilans og afmarka mögulegar lausnir á verkefninu. Nemendur í mismunandi námsbrautum fá síðan úthlutað verkefni sem snýr að þeirra fagsviði og vinna í teymum að þróun og gerð afurðar sem er tilbúin til notkunar.

Verkfræði X byggir á vinsælum valnámskeiðum í HR þar sem nemendur hafa meðal annars búið til eldflaug, sjálfráðan kafbát, róbot með forritanlegu göngulagi til að prófa stoðtæki, hugbúnað til að verðleggja skuldabréf, skipulag á lager til að hámarka afköst í útkeyrslu, og hermunarlíkan fyrir innhringiver.

Í MSc námi geta nemendur unnið að meistaraverkefni í samstarfi við fyrirtæki. Þessi verkefni, sem hafa beina hagnýtingu fyrir atvinnulífið, eru kjörin leið fyrir nemendur að kynnast viðfangsefni og starfsemi fyrirtækis en jafnframt leið til að kynna sig fyrir iðnaðinum. Atvinnulífstengd verkefni opna dyr nemenda inn í fyrirtækin og oft hafa nemendur verið ráðnir til fyrirtækis sem þau unnu verkefni með. Hér má nálgast frekari upplýsingar um styrkt rannsóknarverkefni.

Skiptinám

Nemendur geta sótt um að fara í skiptinám við erlendan háskóla. Nemendur í BSc-námi þurfa að vera með 7 eða hærra í meðaleinkunn og að hafa lokið 60 einingum þegar þeir fara í skiptinámið. Skrifstofa alþjóðaskiptaveitir frekari upplýsingar um hvert hægt er að fara í skiptinám.

Nýsköpun þvert á deildir

Nemendur í meistaranámi í HR geta valið námskeið í nýsköpunar- og frumkvöðlafræðum þvert á deildir háskólans. Námskeiðin auka þekkingu og færni nemenda á öllum helstu sviðum nýsköpunar: fræðilegri þekkingu, skapandi nálgun viðfangsefna, vöruþróun, áætlanagerð, stjórnun og fjármálum. Ljúki nemendur 30 einingum á þessu sviði geta þeir útskrifast með nýsköpunar- og frumkvöðlafræði sem sérsvið.

Að námi loknu

Leiðtogar sem takast á við ný tækifæri

Markmið rekstrarverkfræðinámsins er að mennta stjórnendur, sérfræðinga og leiðtoga sem geta tekist á við nýsköpunarverkefni, flókin alþjóðleg viðskipti og uppbyggingu nýrra tækifæra í atvinnulífinu.

Hvað eru útskrifaðir nemendur að fást við?

Guðlaug Jökulsdóttir

„Ég lauk MSc-gráðu í rekstrarverkfræði frá HR vorið 2013 og um haustið var ég ráðin inn á Verkfræðideild Icelandair. Þegar ég stóð á sviði Eldborgar í Hörpu í júnímánuði óraði mig ekki fyrir því að nokkrum mánuðum síðar yrði viðhald á flota Icelandair að hluta til undir mér komið.

Ég er sérfræðingur á Verkfræðideild Icelandair og sinni þar ýmsum störfum sem koma að viðhaldi á rúmlega þrjátíu flugvélum, bæði hérlendis og í Papúa Nýju Gíneu. Þegar ég hóf störf hjá Icelandair byrjaði ég sem verkfræðingur viðhaldskerfis, þar sem ég sá um uppfærslu á kerfinu. Nú hafa fleiri áhugaverð verkefni bæst við og sinni ég meðal annars verkefnastjórnun og kem að ýmsum innleiðingum tengdum verkfræðideild, svo sem LEAN, JIRA-kennslu auk þess að sjá um viðhaldskerfið fyrir Boeing 767 vélar Icelandair sem eru í rekstri hjá Air Niugini í Papúa Nýju Gíneu.

Það sem hefur nýst mér hvað mest í starfi úr námi mínu í rekstrarverkfræði er tækni til úrlausnar á vandamálum. Í daglegum störfum mínum koma oft upp vandamál sem þarf að kryfja og leysa og hefur verkfræðiheilinn nýst mér vel á þeim vettvangi. Auk þess hefur þekking mín og kunnátta á Excel reynst mér mjög vel en hana má helst rekja til vinnslu lokaverkefnis míns í meistaranámi.

Flugheimurinn er skrítinn og flókinn heimur en ég finn það vel hvað menntun mín er góð stoð og mikil hjálp í mínum daglegu störfum. Kennslan í Háskólanum í Reykjavík var til fyrirmyndar og hefur reynst mér ómetanlegur undirbúningur og nauðsynlegt upphaf á ferli mínum sem verkfræðingur.“

Skúli Magnús Sæmundsen

„Mér þótti nám við verkfræðideild HR bæði hagnýtt og viðburðaríkt. Meðal annars stóð mér til boða að fara í skiptinám erlendis, til Barcelona og Kaupmannahafnar, sem ég nýtti mér og sú reynsla staðfesti enn frekar fjölbreytni og gæði námsins. Námið hefur reynst mér góður stökkpallur út í atvinnulífið og hefur gefið mér góða undirstöðu til að takast á við þau margvíslegu verkefni sem ráðgjafastarfið hefur upp á að bjóða, en ég er ráðgjafi hjá Expectus ehf.“ 

Starfsréttindi

Verkfræðinám samanstendur af 3ja ára (180 einingar) grunnnámi og tveggja ára (120 einingar) MSc námi. Til að öðlast starfsréttindi og leyfi til að nota lögverndaða starfsheitið verkfræðingur þarf að ljúka MSc-gráðu í samræmi við kröfur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Starfsnámið veitir forskot

Nemendur í verkfræði við HR geta sótt um starfsnám. Markmið með starfsnámi er að auka þekkingu nemenda á því sviði sem þeir stunda nám á og búa þá undir störf að námi loknu.

Skipulag MSc

Til þess að öðlast starfsréttindi sem verkfræðingur þarf að BSc námi loknu að ljúka tveggja ára MSc námi.

Sérhæfing og einstaklingsmiðað nám

Í framhaldsnámi afla nemendur sér sérfræðiþekkingar og hagnýtrar tækniþekkingar. Nemendur gera einstaklingsmiðaða námsáætlun í samráði við leiðbeinanda, allt eftir áhugasviði. Námið er rannsóknartengt og getur nemandinn valið að nýta sér það til umtalsverðrar sérhæfingar.

MSc nám - 120 einingar - 2 ár 

MSc 1. ár
Haust Vor
MSc 2. ár
HaustVor

Útskrift með MSc í verkfræði og skilyrðum um lögverndað starfsheiti sem verkfræðingur fullnægt

Meistaraverkefni

Valnámskeiðum er ætlað að auka skilning og undirbúa rannsóknarefni nemandans. Meistaraverkefni er 30 einingar, unnið á lokaönn. Hægt er að sækja um að vinna 60 eininga meistaraverkefni og taka þá samsvarandi færri valnámskeið.

Skiptinám og starfsnám

Nemendur geta sótt um starfsnám (12 einingar) á vorönn. Nemendur geta sótt um skiptinám á haust- eða vorönn.

Annað

Verkefni

Dæmi um verkefni nemenda í rekstrarverkfræði við HR:

Notkun á bestunarmódeli við verkniðurröðun í framleiðslu

Rannveig Guðmundsdóttir

Samkeppni í framleiðsluiðnaði er stöðugt að aukast. Fyrirtæki framleiða gjarnan sambærilegar vörur og keppa um hylli kaupenda á grundvelli verðs, gæða og sveigjanleika. Til að skapa sér samkeppnisforskot þurfa fyrirtæki að hámarka afköst og nýta sínar fjárfestingar í tækjum og mannauði sem best. Þar getur árangursrík verkniðurröðun skipt höfuð máli og með aukinni samkeppni hefur mikilvægi verkniðurröðunar aukist enn frekar. 

>> Lesa meira um notkun á bestunarmódeli við verkniðurröðun í framleiðslu

Mun blóðbankinn þurfa að líða skort?

Guðlaug Jökulsdóttir

Rannsókn Guðlaugar Jökulsdóttur var á sviði íbúamiðaðra rannsókna um lýðfræðileg áhrif varðandi framboð og eftirspurn blóðgjafa. Verkefnið fól í sér smíð á spálíkani til þess að spá fyrir um stöðu blóðgjafa og blóðþega í framtíðinni.

Starf blóðbankans hefur alltaf staðið Guðlaugu nærri var henni mikið í mun að menn og konur gefi blóð, en framboð mætti vera mun meira. Slík rannsókn hefur ekki verið gerð hérlendis áður og því var spálíkanið hugsað sem gott tól fyrir blóðbankann til þess að spá fyrir um framtíðina og geta í kjölfarið lagt aukna áherslu á blóðsöfnun. 

>> Lesa meira um framboð og eftirspurn blóðgjafa 

Stærðfræðilíkön fyrir úthlutun

Skúli Magnús SæmundsenÁ hverju vori lýkur stór hópur barna leikskólavist á höfuðborgarsvæðinu til að hefja grunnskólagöngu þá um haustið. Um það leyti stendur Reykjavíkurborg frammi fyrir ákvörðunartökuvandamáli um hvernig úthluta eigi lausum plássum leikskóla sem staðsettir eru víðsvegar um borgina. Í dag er þessi úthlutun gerð að mestu leiti handvirkt sem er bæði tímafrekt og ógagnsætt. Í meistaraverkefni sínu í rekstrarverkfræði skoðaði Skúli Magnús Sæmundsen tvö ólík stærðfræðilíkön sem kunna að koma að gagni við úthlutun á lausum plássum og bar þau saman við núverandi fyrirkomulag hjá borginni. 

>> Lesa meira um stærðfræðilíkön fyrir úthlutun leikskólaplássa

Aðstaða

Þjónusta og góður aðbúnaður

Öll kennsla fer fram í háskólabyggingu HR í Nauthólsvík. Þar er einnig aðstaða til verklegrar kennslu, hópavinnuherbergi, mötuneyti, náms- og starfsráðgjöf og önnur þjónusta við nemendur

Kennslustofur og lesherbergi

Húsnæði Háskólans í Reykjavík býður upp á afar góða aðstöðu til kennslu, lesturs og samvinnu nemenda. Kennslustofur eru vel búnar og nemendur geta nýtt sér hópavinnuherbergi. Almenn aðstaða er opin nemendum allan sólarhringinn. Sjá fleiri myndir af aðstöðunni í HR.

Adstadan_bokasafnRáðgjöf og aðstoð

Í háskólabyggingunni er greiður aðgangur að náms- og starfsráðgjöf, alþjóðaskrifstofu og tækniaðstoð. Á bókasafninu er góð og fjölbreytt vinnuaðstaða. Safnið býður aðgang að bókum og fræðigreinum og upplýsingafræðingar eru með opna tíma þar sem nemendur geta litið við og fengið ráðleggingar og aðstoð vegna heimildavinnu.

Verslanir og kaffihús

Í HR er jafnframt Háskólabúðin sem selur helstu nauðsynjavörur, kaffihús, æfingasalur World Class og Málið veitingasala.

Kennarar

Hagnýt reynsla og fræðilegur grunnur

Kennarar við deildina byggja kennslu sína á fræðilegum grunni og hagnýtri reynslu úr atvinnulífinu. Þetta undirbýr nemendur einstaklega vel fyrir framtíðarstörf. Kennarar við HR eru að jafnaði í miklum samskiptum við nemendur.

Námsbrautarstjóri í rekstrarverkfræði er Hlynur Stefánsson.

Allir fastráðnir kennarar verkfræðideildar


Inntökuskilyrði

MSc í rekstrarverkfræði

Gert er ráð fyrir að nemandi hafi grunngráðu (BSc) í rekstrarverkfræði. Hafi nemandi annan bakgrunn getur viðkomandi þurft að bæta við námskeiðum úr grunnnámi. Í slíkum tilvikum er ætlast til að nemandi klári þessi námskeið á fyrsta námsári sínu.

Umsóknarfrestur

  • Frá 5. febrúar til og með 30. apríl - fyrir haustönn.
  • Frá 15. október til og með 5. desember - fyrir vorönn.

Getum við aðstoðað?

Sóley Davíðsdóttir 

Verkefnastjóri - MSc verkfræði


Fara á umsóknarvef

Var efnið hjálplegt? Nei