Rafiðnfræði

Hagnýtt diplómanám

Rafiðnfræðingar fást m.a. við hönnun, uppsetningu og eftirlit með stýri-, lýsingar- og raflagnakerfum. Námið veitir góðan undirbúning með fjölbreyttum námskeiðum, raunhæfum verkefnum og hagnýtu lokaverkefni.

Um námið

Aukin tækifæri

Nemendur í iðnfræði fá fjölbreytta og hagnýta þekkingu á sínu sviði, styrkja stöðu sína á vinnumarkaði og verða hæfari til að takast á við fleiri og fjölbreyttari störf. Með því að ljúka náminu getur nemandi öðlast meistararéttindi og lögverndað starfsheiti sem iðnfræðingur.

Fjarnám með tveimur staðarlotum

Rafiðnfræði er 90 ECTS eininga nám. Kennt er í fjarnámi með tveimur staðarlotum á önn, eina helgi í senn. Námið er skipulagt þannig að yfirleitt tekur þrjú ár að ljúka því samhliða vinnu.

Raunhæf verkefni í staðarlotum

Í sumum áföngum eru staðarloturnar nýttar fyrir verklegar æfingar og verkefni unnin í raunumhverfi. Í rafiðnfræði setja nemendur meðal annars upp iðntölvustýringar í verklegum stofum, hanna stafræn ökutæki og ljúka verklegu námskeiði í kælitækni á vélaverkstæði. 

Teikning af rafmangsskema með rafmagnsvírum liggjandi ofan á


Viðamikið lokaverkefni 

Náminu lýkur með 12 ECTS eininga lokaverkefni þar sem sýnt er fram á verkþekkingu og faglega hæfni við tæknilegar úrlausnir í hönnun, skipulagningu og þróun. Verkefnin eru oftast unnin í samstarfi við fyrirtæki.

Viðbótarnám

Að loknu diplómanámi í iðnfræði geta nemendur bætt við sig 45 ECTS eininga námi í rekstrarfræði og hlotið starfsheitið rekstrarfræðingur. Þar með auka nemendur færni sína í rekstri og stjórnun framleiðslufyrirtækja.

Í hópi framsækinna tækniháskóla

HR tekur þátt í alþjóðlegu samstarfsneti framsækinna háskóla um allan heim sem kenna tæknigreinar. Samkvæmt hugmyndafræðinni sem höfð er til hliðsjónar er verkfræðingum framtíðarinnar veittur traustur, fræðilegur grunnur en þeir vinna þar að auki raunhæf verkefni ásamt því að leysa verkefni í hópum. Nemendur kunna því á ferlið frá hugmynd yfir í hönnun, framkvæmd og rekstur þegar þeir koma á vinnumarkaðinn. 

Samstarfsnetið heitir CDIO, sem stendur fyrir „Conceive, Design, Implement, Operate“. 

Aðrir skólar í CDIO eru meðal annars: 

  • DTU - Danmarks Tekniske Universitet 
  • Chalmers University of Technology 
  • Aalborg University 
  • MIT - Massachusetts Institute of Technology  
  • Delft University of Technology 

Að námi loknu

Lögverndað starfsheiti

Að loknu námi hlýtur nemandinn prófgráðuna diplóma í rafiðnfræði og uppfyllir skilyrði til að hljóta lögverndaða starfsheitið iðnfræðingur. Til að útskrifast sem iðnfræðingur þarf nemandi að hafa lokið sveinsprófi í iðngrein á viðkomandi sviði og veitir námið þá rétt til meistarabréfs. 

Sýslumenn sjá um að gefa út iðnmeistarabréf. 

Fjölbreytt starfssvið

Rafiðnfræðingar starfa á verkfræðistofum og hjá orku- og framleiðslufyrirtækjum við hönnun raflagna og við  uppsetningu ýmissa rafmagns- og stýrikerfa.

Þekking og færni

Í lærdómsviðmiðum má sjá hvaða þekkingu, leikni og hæfni nemendur eiga að búa yfir að námi loknu.

Viðbótarnám í rekstrarfræði

Að loknu diplómanámi í rafiðnfræði geta nemendur bætt við sig 45 ECTS námi í rekstrarfræði og hlotið starfsheitið rekstrarfræðingur. Þar með auka nemendur færni sína í rekstri og stjórnun framleiðslufyrirtækja.

Halda áfram í tæknifræði við HR

Útskrifaðir iðnfræðingar geta fengið hluta af námi sínu metið inn í tæknifræðinám iðn- og tæknifræðideildar. Með þessu fæst góð samfella í námi við deildina ef nemendur kjósa að halda áfram í frekara háskólanám. Iðnfræðingar þurfa eftir atvikum að bæta við sig einni önn í Háskólagrunni. Uppfylli viðkomandi lágmarkseinkunn fær hann að lágmarki 29 ECTS metnar inn í rafmagnstæknifræði.

Lokapróf í Háskólagrunni

Þau sem lokið hafa iðnfræðinámi geta lokið lokaprófi í Háskólagrunni HR á einni önn (vorönn) og eiga þess þá kost að hefja nám í tæknifræði.

Aðstaða

Þjónusta og góður aðbúnaður

Í háskólabyggingu HR er lesaðstaða og bókasafn, aðstaða til verklegrar kennslu, hópavinnuherbergi, mötuneyti, náms- og starfsráðgjöf og önnur þjónusta við nemendur.

Nemandi lærir í Sólinni

Aðstaða í fjarnámi

Nemendur í iðnfræði geta víða á landsbyggðinni fengið aðstöðu til náms og hópavinnu í símenntunarstöðvum, fræðslusetrum og háskólasetrum, en á höfuðborgarsvæðinu býðst nemendum vinnuaðstaða í HR. Upplýsingar um slíka aðstöðu utan Reykjavíkur er að finna hjá sveitarfélögum. 

Kennslustofur og lesherbergi

Húsnæði Háskólans í Reykjavík býður upp á afar góða aðstöðu til kennslu, lesturs og samvinnu nemenda. Kennslustofur eru vel búnar og nemendur geta nýtt sér hópavinnuherbergi. Almenn aðstaða er opin nemendum allan sólarhringinn. Sjá fleiri myndir af aðstöðunni í HR. 

Góð þjónusta

Í háskólabyggingunni er greiður aðgangur að náms- og starfsráðgjöf, alþjóðaskrifstofu og tækniaðstoð. Á bókasafninu er góð og fjölbreytt vinnuaðstaða.  

Kennarar

Reynsla og sérfræðiþekking 

Nemendur í iðnfræði njóta leiðsagnar öflugra kennara á fagsviðinu, tæknimanna og hönnuða innan háskólans, og fjölda stundakennara með sérfræðiþekkingu úr atvinnulífinu. Kennarar við HR eru að jafnaði í miklum samskiptum við nemendur. 

Fastráðnir kennarar í iðnfræði

Jens Arnljótsson

BSc
Námsbrautarstjóri í iðnfræði

Aðalkennslugreinar eru á sviði varmafræði, varmaflutnings, rennslis-  og straumfræði sem tengjast m.a. hagnýtu hönnunarverkefni eða tilraunum á sviði varma og streymisfræði í námi vél- og orkutæknifræðinema. Einnig hefur Jens umsjón með iðnfræðinámi í HR og lokaverkefnum véliðnfræðinema. Menntun: Ingeniør højskolen Helsingør Teknikum 1986, véltæknifræðingur BSc Mech. Eng, með orkufræði sem sérsvið. Fyrri störf: Verkfræðistofa Stefáns A. Stefánssonar, hönnun ýmiss vélbúnaðar, lagna og rennslikerfa, þó einkum vinna tengd sjávarútvegi og þá sérstaklega varmagreining og varmendurvinnsla á orku fra útblæstri   fiskimjölsverksmiðja víðs vegar um landið, Stálvík hf. og Skipahönnun ehf., við hönnun, breytingar og fyrirkomulag vélbúnaðar í fiskiskipum.


Aldís Ingimarsdóttir

MSc

Kennir námskeið í jarðtækni og lagnahönnun í byggingariðnfræðinni.  Einnig kennir hún jarðtækni, áfanga í vega- og gatnagerð, vatns- og fráveitugerð og hefur haft umsjón með sérverkefnum og lokaverkefnum á því sviði í byggingartæknifræði við HR.  Aldís hefur verið við HR síðan árið 2007, fyrst sem stundakennari og svo fastráðin frá  hausti 2015. Aldís lauk MSc-prófi í byggingarverkfræði  frá Tækniháskóla Danmerkur (DTU ) 1996. Eftir nám starfaði hún á verkfræðistofunni Fjölhönnun við gatna- og vegahönnun og ýmsa hönnun á sviði byggingarverkfræði.  Hún var meðeigandi að Fjölhönnun 2000 til 2006 og tók þá þátt í stjórnun og rekstri fyrirtækisins.  Aldís er umferðaröryggisrýnir sem er leyfi til að taka út vegamannvirki út frá umferðaröryggi, slíkt leyfi er gefið út af Samgöngustofu.  Einnig er hún varaformaður jarðtæknifélags Íslands (JTFÍ) en félagið er í mikilli sókn í að auka þekkingu og áhuga á jarðtækni.
Einar Jón

Einar Jón Ásbjörnsson

PhD

Kennir einkum námskeið á sviði efnisfræði og orkutækni með megináherslu á jarðhita. Einar leggur mikla áherslu á að tengja saman hagnýt verkefni við sterkan fræðagrunn í kennslu. Einar hefur starfað við efnisfræðirannsóknir hjá Iðntæknistofnun Íslands, innleiðingu og suðuprófanir á hástyrksstáli hjá Volvo í Svíþjóð og var tæknistjóri gufuveitu hjá OR áður en hann kom til starfa hjá HR.  Einar lauk CSc- og MSc-prófi í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands 1996 og PhD frá háskólanum í Nottingham 2001, þar sem hann rannsakaði hegðun kornasmækkunarefnis í áli.

Eyþór Rafn Þórhallsson

MSc

Kennir námskeið um efnisfræði byggingarefna í iðnfræðinni og er leiðbeinandi með lokaverkefnum byggingaiðnfræðinga. Eyþór kennir jafnframt efnisfræði og hönnun steinsteyptra mannvirkja í byggingartæknifræðináminu og er leiðbeinandi með verkefnum í byggingafræði. Eyþór hefur kennt fjölda námskeiða á sviði hönnunar og burðarþols þá bæði í byggingatæknifræði og  í meistaranámi byggingaverkfræði, jafnframt hefur hann verið leiðbeinandi við fjölda lokaverkefna  á öllum brautum byggingasviðs, þ.e.a.s iðnfræði, byggingafræði, tæknifræði og meistaranáms í verkfræði. Eyþór hefur mikla reynslu af burðarþolshönnun og framkvæmdum á mannvirkjum þá meðal annars á sviði íbúðarbygginga, verslunar- og skrifstofuhúsnæðis, iðnaðarhúsnæðis og hönnun á vatnsaflsvirkjunum. Undanfarin ár hefur Eyþór staðið fyrir umfangsmiklum rannsóknum á notkun basalttrefjabendingar í mannvirkjum og birt fjölda vísindagreina, sjá nánar á sel.ru.is. Eyþór lauk prófi í byggingartæknifræði frá TÍ 1984, próf í iðnrekstrarfræði við TÍ 1985 og MSc-prófi í byggingaverkfræði frá Heriot Watt, Skotlandi 1988 með áherslu á burðarvirki. 

Indriði Sævar

Indriði Sævar Ríkharðsson

MSc

Kennir námskeið á sviði vélahönnunar og tölvustuddrar hönnunar, s.s. vélhlutafræði, FEM greiningu og þrívíddarhönnun. Einnig námskeið á sviði stýringa s.s. reglunarfræði, stýritækni (loft og vökvastýringar), PLC stýringar og forritun iðnaðarþjarka. Indriði leggur mikla áherslu á hagnýt og krefjandi verkefni í kennslu í anda CDIO. Hefur einnig verið leiðbeinandi í meistaraverkefnum í vélaverkfræði og byggingaverkfræði og tekið þátt í rannsóknarverkefnum á sviði ómannaðra farartækja og jarðskjálftahönnunar. Indriði er einnig umsjónarmaður lokaverkefna í vél- og orkutæknifræði og leiðbeinandi í mörgum þeirra. Indriði lauk prófi í vélaverkfræði við HÍ 1987 og MSc-prófi í vélaverkfræði frá Tækniháskóla Danmerkur (DTU) 1990 með áherslu á annars vegar sjálfvirk stýrikerfi og hinsvegar ólínulega tímaháða FEM greiningu.

Stundakennarar í iðnfræði

  • Ásgeir Mattíasson, verkfræðingur hjá RÖST tækniþjónustu
  • Bjarki Þór Sveinsson, lögmaður hjá Málflutningsstofu Reykjavíkur
  • Bolli Héðinsson, hagfræðingur, sjálfstætt starfandi
  • Davíð Freyr Jónsson, rafmagnstæknifræðingur hjá Össuri
  • Guðni Jónsson, verkfræðingur hjá Eflu verkfræðistofu
  • Hannes Frímann Sigurðsson, byggingartæknifræðingur hjá Samtökum iðnaðarins
  • Heiðar Jónsson, tæknifræðingur hjá Mannvit
  • Hektor Már Jóhannsson, verkfræðingur hjá VSÓ ráðgjöf
  • Helgi Guðjón Bjarnason, byggingafræðingur hjá TARK
  • Helgi Hauksson, verkfræðingur hjá Félagsbústöðum
  • Jóhann Albert Harðarson, verkfræðingur hjá Ferli verkfræðistofu
  • Jón Bjarnason, verkfræðingur hjá Extreme Iceland
  • Jón Brandsson, tæknifræðingur hjá Elkem
  • Jón Gautason, vél- og orkutæknifræðingur hjá Set ehf.
  • Karl G Friðriksson, hagfræðingur hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands
  • Kristinn Alexandersson, tæknifræðingur hjá VSÓ ráðgjöf
  • Ólafur Hermannsson, tæknifræðingur hjá VSÓ ráðgjöf
  • Rósa Dögg Þorsteinsdóttir, lýsingarhönnuður og innanhússarkitekt hjá Ljósark
  • Rúnar Gísli Valdimarsson, verkfræðingur hjá Mannvit
  • Sigurjón Valdimarsson, viðskiptafræðingur, sjálfstætt starfandi
  • Svanbjörn Einarsson, tæknifræðingur hjá Verkís
  • Þormóður Sveinsson, arkitekt og skipulagsfulltrúi hjá Hafnarfjarðarbæ
  • Þóra Karen Ágústsdóttir, tækniteiknari hjá Eflu

Skipulag náms

Námstími

Námið er 90 ECTS einingar. Hægt er að ljúka því á þremur árum (6 annir) samhliða vinnu.  

Fjarnám með staðarlotum 

Kennt er í fjarnámi með staðarlotum. Tvær verkefnalotur eru á önn þar sem nemendur koma saman í HR eina helgi í hvert skipti. Í sumum áföngum eru staðarloturnar nýttar fyrir verklegar æfingar og einnig er farið í fyrirtæki og verkefni unnin í raunumhverfi.

Staðarlotur

Staðarlotur eru tvisvar á önn, sú fyrri í upphafi annar og sú síðari þegar 7 vikur eru liðnar af önninni. 

Skipulag náms

Nám með vinnu

12 ‐ 18 ECTS einingar á önn

 1. önn - haust   18 ECTS 2. önn - vor   18 ECTS

RI RAF 1003 Rafmagnsfræði

Einingar:                     6 ECTS
Ár:                               1. ár
Önn:                            Haustönn
Stig námskeiðs:          Grunnnám - grunnsnámskeið
Tegund námskeiðs:    Skyldunámskeið
Undanfarar:                Engir
Skipulag:                            Kennt í fjarnámi í 15 vikur, tvær staðarlotur
Umsjónarkennari:      Guðmundur Kristjánsson 
Kennari:                      Jón Bjarnason. 

Lærdómsviðmið: Stefnt er að því að nemendur:

öðlist þekkingu á þessum grundvallaratriðum rafmagnsfræðinnar

  • greiningu einfaldra rása
  • lögmálum Ohms og Kirchoffs
  • rásargreiningaraðferðum Thevenins og Nortons sem og samlagningaraðferðinni
  • orkuvarðveislu í rafsegulsviði
  • eiginleikum orkugegnandi (e: passive) íhluta í rafrásum
  • jafnstraumsrásum
  • riðstraumsrásum
  • tvinntölureikningum í riðstraumsrásum

nái leikni í

  • að leysa dæmi og verkefni úr ofantöldu námsefni sem nær meðal annars yfir
    • jafngildisreikninga fyrir orkugegnandi (e: passive) íhluti í rað- og hliðtengingum
    • reikninga fyrir staum, spennu, viðnám, orku og afl í jafnstraumsrásum
    • reikninga fyrir staum, spennu, tvinnviðnám og fasvik í riðstraumsrásum 

auki hæfni sína í 

  • að skilja rafmagnsfræðileg viðfangsefni og úrlausnir þeim tengdum.
  • að setja fram rafmagnsfræðileg viðfangsefni og leysa
  • að ræða og útskýra rafmagnsfræðileg viðfangsefni

Lýsing: 
Rafmagnsfræði:

  • Straumur, spenna og viðnám.
  • Jafnstraumsrásir (DC rásir)
  • Spennu- og straumdeilar, lekaviðnám.
  • Spennu-, straum og viðnámsmælar, AVO mælar.
  • Straum- og spennulögmál Kirchhoffs.
  • Hnútpunkta- og möskvaútreikingar.
  • Superpositionregla, lögmál Thevenins og Northons.
  • Leiðarar og einangrarar.
  • Rafhlöður
  • Riðspenna og riðstraumur, riðstraums rásir (AC rásir).
  • Seguleiningar, spólur,  span, spanviðnám, spólurásir
  • Þéttar, rýmd, rýmdarviðnám, rýmdarrásir
  • RC og L/R tímafastar.

Til að ná valdi á ofangreindu námsefni í rafmagnsfræði verður einnig farið undirstöðuatriði í stærðfræði eftir þörfum t.d.:

  • Tvinntölur og tvinntölureikninga sem notaðar eru mikið í tengslum við AC reikninga.
  • Hornafræði til undirbúnings tvinntölureikninganna.
  • Fyrstastigs- (línulegar-), annarsstigs og hornafallajöfnur til undirbúnings almennra reikninga í rafmagnsfræði.
  • Jöfnuhneppi, 2 jöfnur með 2 óþekktum í tengslum við beitingu beggja Kirchhoffslögmála á rafrásir.
  • Náttúrleg veldisföll og logra til undirbúnings reikninga fyrir RC, RL og RLC rásir.
  • Undirstöðuatriði diffrunar og heildunar í tengslum við ýmis viðfangsefni í AC rásum.  Hámörk og lágmörk.
  • Myndræn framsetning ferla.

Lesefni: Schultz, Grob´s  Basic Electronics, 11. útgáfa.

Kennsluaðferðir: Kennt í fjarnámi í 15 vikur, tvær staðarlotur. Fyrirlestrar, sýnidæmi, verkefni og úrlausnir í staðarlotum og gegnum rafrænt kennslukerfi. Námsefni á kennsluvef sem fylgt er eftir með reglulegum skilaverkefnum yfir önnina. Leiðbeiningar frá kennara á kennsluvef, námsefni á hljóðglærum, umræðuþræðir.

Námsmat: 3 klst skriflegt lokapróf gildir 80%. Prófið er gagnapróf, sem þýðir að öll gögn á pappír eru leyfileg (í hóflegu magni þó). Skilaverkefni / heimadæmi (6 - 12 stk) gilda 20%.

Tungumál: Íslenska

RI HON 1003 Tölvustudd hönnun í Revit og Autocad

Einingar:                     6 ECTS
Ár:                               1. ár
Önn:                            Haustönn
Stig námskeiðs:          Grunnnám - grunnnámskeið
Tegund námskeiðs:    Skyldunámskeið
Undanfarar:                 Engir
Skipulag:                      Kennt í fjarnámi í 15 vikur, tvær staðarlotur.

Umsjónarkennari: Jens Arnljótsson

Kennari: Þóra Karen Ágústsdóttir          

Lærdómsviðmið:        

Lærdómsviðmið Revit:  Stefnt er að því að nemendur:

  • Kunni helstu skipanir.
  • Læri að taka inn þrívíddarmódel frá meðhönnuði og í framhaldi af því sett upp verkefnin í Revit.
  • Læri að teikna upp raflagnahönnun í hefðbundnar tegundir mannvirkja.
  • Hafi grunnfærni í gerð fjölskyldna og geti nýtt þær í hönnun.
  • Öðlist grunnþekkingu á BIM aðferðafræðinni.
  • Læri að nýta sér upplýsingar úr raflagnamódelinu, s.s teikningar og magntölur.
  • Geti miðlað upplýsingum til meðhönnuða og verktaka.

Lærdómsviðmið AutoCAD:  Stefnt er að því að nemendur:

  • Kunni helstu skipanir.
  • Geti búið til raflagnatákn og sett inn á grunna.
  • Hafi kunnáttu til að undirbúa grunna til notkunar í Revit og kunni að færa inn grunna úr Revit yfir í AutoCAD.
  • Geti sett teikningar upp á blað.

Lýsing:

Á þessu námskeiði verður farið yfir notkun á hönnunarforritnu Revit frá Autodesk og nemendum gefin innsýn í það hvernig hægt er að nýta sér forritið í raflagnahönnun. Einnig verður farið í grunnkennslu á forritinu AutoCAD til að nemendur öðlist grunnþekkingu á notkun þess.

Lesefni:

Námsgögn frá kennara.

Kennsluaðferðir:

Fyrirlestrar, sýnidæmi, verkefni og úrlausnir í staðarlotum og gegnum rafrænt kennslukerfi. Námsefni á kennsluvef sem fylgt er eftir með reglulegum skilaverkefnum yfir önnina. Leiðbeiningar frá kennara á kennsluvef, námsefni á hljóðglærum og umræðuþræðir.

Námsmat: 

Þrjú verkefni verða lögð fyrir:

Verkefni 1 gildir 45% og skiptist niður í þrjú 15% verkefni fram að seinni staðarlotu.

Verkefni 2 gildir 20% og er því skilað eftir seinni staðarlotu.

Verkefni 3 gildir 35% og skil á því eru í lok námskeiðs.

Tungumál: Íslenska.

AI REH 1103 Reikningshald

Einingar:                     6 ECTS
Ár:                               1. ár
Önn:                            Haustönn
Stig námskeiðs:          Grunnnám - grunnnámskeið
Tegund námskeiðs:    Skyldunámskeið
Undanfarar:                Engir
Skipulag:                     Kennt í fjarnámi í 15 vikur, tvær staðarlotur
Umsjónarkennari:      Jens Arnljótsson.
Kennari:                      Sigurjón Valdimarsson. 

Lærdómsviðmið:
Þekking:  Að námskeiðinu loknu ættu nemendur að búa yfir þekkingu á:

  • helstu grunnatriðum í lögum um bókhald og ársreikninga.
  • helstu gjalda-, tekju-, eigna- og skuldareikningum í bókhaldi og ársreikningi.
  • helstu bókhaldsfærslum í fjárhagsbókhaldi og sundurliðun viðskiptamanna.
  • helstu reglum  um bókhald og skil á virðisaukaskatti.
  • vöxtum og verðtryggingu í lánaviðskiptum og færslu þeirra í bókhaldi.
  • helstu reglum um fyrningu eigna.
  • bókun skammtíma og langtíma eigna í hluta- og skuldabréfa.
  • helstu færslum í launabókhaldi.
  • tölvufærðu bókhaldi, þ.e. fjárhagsbókhaldi, sölukerfi og launakerfi.
  • uppgjöri rekstrar- og efnahagsreikings og sjóðstreymi.
  • sjóðstreymi og helstu kennitölur ársreikninga.

Leikni: Nemandi á að geta:

  • fært helstu viðskiptafærslur í fjárhagsbókhaldi.
  • reiknað virðisaukaskatts. reglur um bókun og skil á virðisaukaskatti.
  • reiknað vexti og verðtryggingu lána og bókað í fjárhagsbókhaldi.
  • reiknað og bókað fyrningu eða afskrift fasteigna, véla og tækja skv. reglum ríkisskattstjóra.
  • reiknað hækkun eða lækkun á verðmæti hlutabréfa og bókað endurmat í ársreining.
  • reiknað og bókað helstu færslur í launabókhaldi, m.a. lífeyrissjóð, stéttarfélagsgjald, staðgreiðslu skatta, mótframlag í lífeyrissjóð og tryggingagjald.
  • gert upp bókhaldið og stillt upp ársreikningi, þ.e. rekstrar- og efnahagsreikningi og sett upp sjóðstreymi í handfærðu bókhaldi.
  • bókað færslur fjárhagsbókhalds, launabókhald og sölukerfi í viðurkenndu tölvubókhaldskerfi.
  • tekið út uppgjör helstu atriða bókhaldsins í viðurkenndu tölvubókhaldskerfi, gert upp virðisaukaskatt, sýnt sundurliðun viðskiptamanna og uppgjör rekstrar- og efnhagsreiknings.
  • reiknað helstu kennitölur ársreikninga.

Hæfni: Nemandi á að geta:

  • staðið fjárhagslega fyrir rekstri smærri fyrirtækja. 
  • handfært eða notað viðurkennd tölvubókhaldskerfi til að færa bókhald fyrir smærri fyrirtæki og sett upp ársreikning.
  • metið ársreikninga fyrirtækja og túlkað þær upplýsingar sem þar koma fram.

Lýsing: Grunnþættir bókfærslu. Gjöld, tekjur, skuldir, og eignir. Samband höfuðbókar, dagbókar og efnahagsbókar. Undirbækur. Undirstöðuatriði tölvubókhalds. Virðisaukaskattsfærslur. Reikningsjöfnuður. Millifærslur. Uppgjör. Fjárhagsbókhald: Góð reikningsskilavenja. Bókhaldslög og bókhaldsgögn, tekju- og gjaldaskráning, reglur um bókun og skil á virðisaukaskatti. Launabókhald: launa útreikningur, lífeyrissjóður, félagsgjöld o.fl. Skilagreinar lífeyrissjóðs, opinberra gjalda, staðgreiðslu skatta og tryggingargjalds. Skattskil, fyrningar, rekstur bifreiða.

Lesefni: Sigurjón Valdimarsson, Bókfærsla og reikningshald, útg. 2016 (ekki er hægt að nota eldri útgáfur).

Kennsluaðferðir: Kennt í fjarnámi í 15 vikur, tvær staðarlotur. Fyrirlestrar, sýnidæmi, verkefni og úrlausnir í staðarlotum og gegnum rafrænt kennslukerfi. Námsefni á kennsluvef sem fylgt er eftir með reglulegum skilaverkefnum yfir önnina. Leiðbeiningar frá kennara á kennsluvef, námsefni á hljóðglærum, umræðuþræðir.

Námsmat: 4 klst. skriflegt lokapróf gildir 52% og ná þarf einkunn 5,0.  Skilaverkefni (5) gilda 24% og ná þarf meðaleinkunn 5,0.  Netbókhaldsverkefni gilda 24%, þarf að vinna til fullnustu þ.e. nemandi þarf að leiðrétta villur þar til rétt niðurstaða fæst.  Skilaskylda er á öllum verkefnum.

Tungumál: Íslenska

RI REI 1003 Rafeindatækni 

Einingar:                     6 ECTS
Ár:                               1. ár
Önn:                             Vorönn
Stig námskeiðs:          Grunnnám – grunnnámskeið
Tegund námskeiðs:    Skyldunámskeið
Undanfarar:                 Rafmagnsfræði (RI RAF 1003)
Skipulag:                     Kennt í fjarnámi í 15 vikur, tvær staðarlotur
Umsjónarkennari:      Guðmundur Kristjánsson
Kennari:                      Davíð Freyr Jónsson 

Lærdómsviðmið: Stefnt er að því að nemendur:

  • Hafi staðgóða þekkingu í undirstöðuatriðum rafeindatækninnar. 
  • Geti sótt og tileinkað sér nýjustu tækni yfir internetið.
  • Geti sett upp og viðhaldið rafeindabúnaði.
  • Geti séð um smíði einfaldra rafeindarása, sinnt  verkstjórn og eftirliti.
  • Geti greint bilanir, metið þörf fyrir aðstoð og leitað sérfræðiaðstoðar.

Lýsing: Hálfleiðaraeðlisfræði, díóðusamskeyti, díóðujafnan, zenerdíóða, jafngildisrásir díóða, afriðun, bipolar transistorar, Darlington-tenging, mismunamagnari, mögnunarsuð og tíðnisvörun, FET transistorrásir, aflgjafarásir, vinnupunktur og álagslína, jafngildisrásir transistora,neikvæð afturverkun, magnarastig, samtengd magnarastig, aðgerðarmagnarar, instrumentmagnarar, suð bjögun og tíðnisvörun, mælinemar, söfnun mæligilda, alias skekkjur, thyristorinn, diac og triac.

Lesefni: Floyd,  Electronic Devices, 9. útgáfa (conventional current version).

Kennsluaðferðir:  Kennt í fjarnámi í 15 vikur, tvær staðarlotur. Samtals 45 fyrirlestrar og vikuleg heimaverkefni. Leiðbeiningar frá kennara, glærur, hljóðglærur, vekefnaskil, tvær staðarlotur, umræðuþræðir.

Námsmat: 3 klst. skriflegt próf gildir 80%, 6 verkefni gilda 20%. Nemendur þurfa að skila minnst 75% af verkefnunum til þess að öðlast próftökurétt. Nemendur þurfa að ná prófinu áður en einkunn fyrir verkefnin fer að telja.

Tungumál: Íslenska

RI RFR 1003 Raforkukerfisfræði og rafvélar

Einingar:                     6 ECTS
Ár:                               1. ár
Önn:                            Vorönn
Stig námskeiðs:          Grunnnám - framhaldsnámskeið
Tegund námskeiðs:    Skyldunámskeið
Undanfarar:                Rafmagnsfræði (RI RAF 1003)
Skipulag:                    Kennt í fjarnámi í 15 vikur, tvær staðarlotur
Umsjónarkennari:      Guðmundur Kristjánsson
Kennari:                      Guðmundur Kristjánsson

Lærdómsviðmið: Að loknu námi geti nemandi: 

  • Skilið hvernig straumur og leiðarar í segulsviði mynda spennur og krafta.
  • Notað tvinntölur til að reikna út impedansa í raforkukerfum.
  • Notað tvinntölur og fasagröf til að reikna fasabreytingar hjá straum og spennu í raforkukerfum.
  • Gert skil á raun-, laun- og sýndarafli í raforkukerum.
  • Reiknað út afltöp í flutningskerfum og spennum.
  • Reiknað út straum- og mismunandi aflþörf mótora eftir álagi.
  • Gert sér grein fyrir hvernig stjórna á segulmögnunarstraum til að stjórna mismunandi aflframleiðslu rafala.

Lýsing: Framleiðsla jafnstraums og riðstraumsrafmagns. Undirstöðuhugtök raforkukerfisfræði, raunafl, launafl og sýndarafl, 3-fasa kerfi, 1-fasa jafngildi, spennar og rafalar, raun- og samviðnám. Jafnframt verður fjallað um einlínumyndir, aflflæðijöfnur og aflflæðigreiningu kerfa. Farið er í fasagröf spennu og strauma. Grundvallaratriði jafnstraums- og riðstraumsmótora. Farið er í grundvallaratriði spenna, töp og viðnámsspeglun þeirra. Farið er í grundavallargerð straum- , spennu- , auto- og  tappaspenna.   Tenging samfasa rafals við sterkt net, flæði afls á milli rafals og nets, og skammhlaupsútreikninga. 

Lesefni: Wilde, Theodore, Electrical Machines, Drives, and Power Systems.

Kennsluaðferðir:  Kennt í fjarnámi í 15 vikur, tvær staðarlotur. Fyrirlestrar í pdf skrám, sýnidæmi, verkefni og úrlausnir í staðarlotum og gegnum rafrænt kennslukerfi. Námsefni á kennsluvef sem fylgt er eftir með reglulegum skilaverkefnum yfir önnina. Leiðbeiningar frá kennara á kennsluvef, umræðuþræðir og skype-fundir.

Námsmat:  3 klst. skriflegt próf gildir 100%.  Í seinni staðarlotu er skyndipróf og framistaða í því gildir 20% í lokaeinkunn ef hún verður nemenda til hækkunar og hann hafi staðist lokaprófið.  Öll próf eru gagnalaus.

Tungumál: Íslenska      

AI STJ 1002 Stjórnun, rekstur og öryggi 

Einingar:                      4 ECTS
Ár:                                1. ár
Önn:                             Vorönn
Stig námskeiðs:          Grunnnám - grunnnámskeið
Tegund námskeiðs:    Skyldunámskeið
Undanfarar:                 Engir
Skipulag:                     Kennt í fjarnámi í 15 vikur, tvær staðarlotur
Umsjónarkennari:      Jens Arnljótsson
Kennari:                      Karl Guðmundur Friðriksson 

LærdómsviðmiðLærdómsviðmið: Við lok námskeiðs mun nemandinn hafa grunnþekkingu á hagnýtri stjórnun og rekstri fyrirtækja. Sé meðvitaður um samfélagslegar kröfur til stjórnenda og umhverfi þeirra út frá ólíkum viðhorfum og gildismati. Skilji mikilvægi mannlegra samskipta á vinnustað og þekki vel til öryggismála og mikilvægis heilbrigðs vinnuumhverfis.

Þekking: Við lok námskeiðs mun nemandi hafa þekkingu á:

· Mikilvægi nýsköpunar og umbóta í rekstri.

· Hugtökum og aðferðum gæðastjórnunar.

· Helstu kennitölum í rekstri og hafi skilning á mikilvægi þeirra.

· Mikilvægi öryggismála og vinnuumhverfis.

Leikni: Við lok námskeiðsins mun nemandi hafa leikni í:

· Stjórnun, rekstri og öryggismálum til að geta staðið fyrir rekstri smærri atvinnufyrirtækja.

· Að nýta fjárhagslegar upplýsingar til umbóta í rekstri.

· Að gera framkvæmdaráætlanir fyrir smærri verkefni.

Hæfni: Við lok námskeiðsins mun nemandi hafa hæfni:

· Í að stjórna starfsmönnum á vettvangi og teymum.

· Í að meta öryggi í vinnuumhverfi og geta mótað umbætur á sviði öryggismála.

· Í að geta hugað að breyttum viðskiptalíkönum til umbóta í rekstri.

Lýsing: Stjórnun sem fræðigrein, undirstaða stjórnunarlegs skilnings. Rekstrarumhverfi, fyrirtækjabragur og viðskiptasiðferði. Farið er í forystuhlutverk stjórnandans, stefnumótun, markmiðasetning og áætlanagerð, hagnýt atriði varðandi stjórnun teyma, stjórnun vinnufunda, ritun fundargerða og verkstjórn. Öryggismálum á vinnustöðum er gerð góð skil.

Lesefni: Karl Friðriksson, Richard Keegan og Eddie O´Kelly, Fyrirmyndarstjórnun. Hagnýt viðmið og samkeppnisforskot, NMI 2014.

Kennsluaðferðir: Kennt í fjarnámi í 15 vikur, tvær staðarlotur. Fyrirlestrar, sýnidæmi, verkefni og úrlausnir í staðarlotum og í gegnum rafrænt kennslukerfi. Námsefni á kennsluvef sem fylgt er eftir með reglulegum skilaverkefnum yfir önnina. Leiðbeiningar frá kennara á kennsluvef, námsefni á hljóðglærum, umræðuþræðir.

Námsmat: 3 klst. skriflegt próf.

Tungumál: íslenska.

AI KFR 1002 Kennslufræði

Einingar: 4 ECTS
Ár: 1. ár
Önn: Vorönn
Stig námskeiðs: Grunnnám - grunnnámskeið
Tegund námskeiðs: Skyldunámskeið
Undanfarar: Engir
Skipulag: Kennt í fjarnámi í 15 vikur, tvær staðarlotur
Umsjónarkennari: Jens Arnljótsson
Kennari: Guðmundur Hreinsson

Lærdómsviðmið: 

Að loknu námskeiði er ætlast til að nemendur hafi öðlast eftirfarandi þekkingu, leikni og hæfni.

Þekking: Við lok námskeiðs mun nemandi hafa þekkingu á:

· ákvæðum laga og reglugerða er varða iðnmenntun á Íslandi.

· algengum aðferðum við fræðslu og þjálfun ólíkra einstaklinga.

· helstu kenningum um nám, kennslu og félagsleg samskipti.

· helstu aðferðum við mat á árangri þjálfunar og frammistöðu í starfi.

· námskröfum og uppbyggingu náms til sveinsprófs í iðngrein sinni samkvæmt aðalnámskrá.

· ákvæðum iðnnámssamninga um réttindi og skyldur iðnmeistara og iðnnema.

· kennslu, leiðsögn og námskröfum á fagsviði sínu.

· helstu sí- og endurmenntunarstofnunum á Íslandi.

Leikni: Við lok námskeiðsins mun nemandi hafa leikni í:

· setja fram einföld markmið fyrir tiltekinn þjálfunarþátt í iðngrein sinni.

· velja viðeigandi aðferðir við þjálfun og mat á frammistöðu.

· skipuleggja afmarkað þjálfunarferli.

· greina færnikröfur starfa og einstakra verkþátta í iðngrein sinni.

· skipuleggja þjálfun í einstökum þáttum, velja viðeigandi aðferðir við leiðsögn og mat og beita þeim aðferðum.

· skrá frammistöðu iðnnema á skipulegan hátt.

· meta þekkingarþörf fyrirtækis og þekkingu starfsmanna.

Hæfni: Við lok námskeiðsins mun nemandi hafa hæfni:

· hagnýta þá þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér um kennslu og leiðsögn iðnnema og nýrra starfsmanna á vinnustað.

· meta námsþarfir iðnnema með hliðsjón af aðalnámskrá og að gera heildstæða þjálfunaráætlun.

· leiðbeina og meta frammistöðu og framfarir iðnnema og nýrra starfsmanna með ólíkum aðferðum.

· útskýra og rökstyðja þjálfunaráætlanir og val aðferða við kennslu, leiðsögn og mat.

· meta einstaklingsmun iðnnema og annarra samstarfsmanna og koma fram við þá af virðingu og nærgætni.

· nota hvatningu, endurgjöf og hrós í leiðsögn og kennslu.

· ígrunda og meta eigið framlag við skipulagningu, framkvæmd og mat á þjálfun annarra og endurskoða áætlanir og aðferðir ef þörf er á.

· gera endurmenntunaráætlun sem byggir á þekkingargreiningu fyrirtækis og starfsmanna.

Lýsing: Nemandi þekki námskröfur og uppbyggingu náms til sveinsprófs í iðngrein sinni og viti hvernig skóli og fyrirtæki þurfa að vinna saman að menntun einstaklingsins. Þekki réttindi og skyldur iðnmeistara og iðnnema á náms- og starfsþjálfunarsamningi. Viti hvernig meistari geti búið iðnnema æskileg skilyrði til náms og þroska í fyrirtækinu og kunni aðferðir til að miðla þekkingu og annast handleiðslu í samræmi við námsþarfir nemans og námskröfur iðngreinarinnar. Þekki helstu aðferðir kennslufræði og námsmats og geti skipulagt endurmenntun í samræmi við þarfir fyrirtækis.

Lesefni: Fengið frá kennara.

Kennsluaðferðir: Kennt í fjarnámi í 15 vikur, tvær staðarlotur. Fyrirlestrar, sýnidæmi, verkefni og úrlausnir í staðarlotum og í gegnum rafrænt kennslukerfi. Námsefni á kennsluvef sem fylgt er eftir með reglulegum skilaverkefnum yfir önnina. Leiðbeiningar frá kennara á kennsluvef, námsefni á hljóðglærum, umræðuþræðir.

Námsmat: 3 klst. Verkefnisbundið

Tungumál: íslenska.

 3. önn - haust   18 ECTS

4. önn - vor   12 ECTS

RI STA 1003 Stafræn tækni 

Einingar:                     6 ECTS
Ár:                               2. ár
Önn:                            Haustönn
Stig námskeiðs:          Grunnnám - grunnnámskeið
Tegund námskeiðs:    Skyldunámskeið
Undanfarar:                Engir
Skipulag:                     Kennt í fjarnámi í 15 vikur, tvær staðarlotur
Umsjónarkennari:      Guðmundur Kristjánsson
Kennari:                      Davíð Freyr Jónsson. 

Lærdómsviðmið: Stefnt er að því að nemendur: 

  • Hafi staðgóða þekkingu í undirstöðuatriðum stafrænnar tækni. 
  • Geti sótt og tileinkað sér nýjustu tækni yfir internetið.
  • Geti sett upp og viðhaldið stafrænum búnaði.
  • Geti séð um smíði einfaldra stafrænna rása, sinnt  verkstjórn og eftirliti.
  • Geti greint  bilanir, metið þörf fyrir aðstoð og leitað sérfræðiaðstoðar.

Lýsing: Rökrásir, NAND og NOR, lausnir á raunhæfum verkefnum með rökrásum, Boolean algebra, Karnaugh lausnir, notkun rökrásahandbóka, samrökrásir, yfirlit yfir TTL og CMOS rásir, inn/út á TTL rásum, CMOS rásir, fjölinngangar (multiplex), gagnaval, fjölútgangar og gagnadreifing (decoder), samhengi milli rafrásateikninga og rökrásateikninga, dæmi um raunhæfar lausnir á rökstýringum, teljarar og minni.

Lesefni: Tomas Floyd, Digital Fundamentals, 10. útgáfa (Pearson New International Edition).

Kennsluaðferðir: Kennt í fjarnámi í 15 vikur, tvær staðarlotur. Fyrirlestrar, sýnidæmi, verkefni og úrlausnir í staðarlotum og gegnum rafrænt kennslukerfi. Námsefni á kennsluvef sem fylgt er eftir með reglulegum skilaverkefnum yfir önnina. Leiðbeiningar frá kennara á kennsluvef, námsefni á hljóðglærum, umræðuþræðir. 

Námsmat: 3 klst. skriflegt próf gildir 80% og vikuleg skilaverkefni 20%. Nemendur þurfa að skila minnst 75% af verkefnunum til þess að öðlast próftökurétt. Nemendur þurfa að ná prófinu áður en að einkunn fyrir verkefnin fer að telja. 

Tungumál: Íslenska.

RI PLC 1003 Iðntölvustýringar

Einingar:              6 ECTS
Ár:                        2. ár
Önn:                     Haustönn
Stig námskeiðs: Grunnnám - grunnnámskeið
Tegund námskeiðs: Skyldunámskeið
Undanfarar: Engir
Skipulag: Kennt í fjarnámi í 15 vikur. Tvær staðarlotur
Umsjónarkennari: Guðmundur Kristjánsson
Kennari: Einar Bjarni Pedersen og Hannes Rúnar Herbertsson.

Lærdómsviðmið: Stefnt er að því að í lok námskeiðs hafi nemendur:

  • grunnþekkingu á iðntölvustýringum og geti leyst algeng og hefðbundin verkefni við hönnun einfaldra vélhluta.
  • grunnþekkingu á mismunandi gerðum iðntölva og notkunarmöguleikum þeirra.
  • skilning á stafrænum (Digital) og hliðrænum (Analog) inn- og útgangsmerkjum.
  • vald á einfaldri forritun í LADDER og FBD/SFC.
  • þekkingu á fasaritum og hvernig þau nýtast við forritun.
  • kynnst uppsetningu og tengingu iðntölva við annan búnað.
  • nægilega þekkingu á iðntölvustýringum til að geta greint vandamál á því sviði og leitað sérfræðiaðstoðar þar sem við á.

Lýsing: Iðntölvustýringar: Farið í uppbyggingu á PLC iðntölvum og tengdum jaðarbúnaði.  Í þessum áfanga er notast við Zelio PLC vél og forritunarpakkann ZelioSoft, frá “Schneider Electric”.  Farið verður í tengingu iðntölvunnar við annan búnað sem og helstu gerðir af inngöngum og útgöngum, bæði stafræna og hliðræna. Einnig er farið yfir nokkrar gerðir skynjara sem notaðir eru í iðnstýringum.  Farið verður yfir þau hjálpartæki sem notast er við þegar hanna á forrit fyrir PLC vélar, svo sem: Flæðirit, Fasarit o.fl.  Forritunarmálin “Ladder” og “FBD Function Block Diagram” verða kynnt í þessum áfanga og notuð við forritun.  Kynning á Modicon M340 iðntölvum og Unity Pro forritunarhugbúnaðinum.  Notast er við hljóðglærur og önnur gögn frá kennara ásamt því að nýta upplýsingar og leiðbeiningar framleiðanda Zelio, Schneider Electric.  Áhersla er lögð á sjálfstæða vinnu nemenda við lausn verkefna.

Lesefni: Afhent af kennara

Kennsluaðferðir: Kennt í fjarnámi í 15 vikur, tvær staðarlotur. Fyrirlestrar, sýnidæmi, verkefni og úrlausnir í staðarlotum og gegnum rafrænt kennslukerfi. Námsefni á kennsluvef sem fylgt er eftir með reglulegum skilaverkefnum yfir önnina. Leiðbeiningar frá kennara á kennsluvef, námsefni á hljóðglærum, umræðuþræðir. 

Námsmat: Lokapróf gildir 60% og verkefni 40% af lokaeinkunn. Athugið að nemandi verður að ná prófinu áður en tekið verður tillit til verkefnanna.

Tungumál: Íslenska

RI LÝR 1003 Lýsingartækni og reglugerð 

Einingar:                      6 ECTS
Ár:                                2. ár
Önn:                             Haustönn
Stig námskeiðs:          Grunnnám – grunnnámskeið
Tegund námskeiðs:    Skyldunámskeið
Undanfarar:                 Engir
Skipulag:                     Kennt í fjarnámi í 15 vikur, tvær staðarlotur
Umsjónarkennari:      Jens Arnljótsson
Kennari:                       Rósa Dögg Þorsteinsdóttir

Lærdómsviðmið: Markmið námskeiðsins er að nemandi hafi grunnþekkingu á lýsingartækni og hafi haldbæra þekkingu á hönnun lýsingarkerfa og úttekt á þeim.

Nemandi sem lokið hefur námskeiðinu

  • Hefur grunnþekkingu í lýsingarfræðum, þekkir helstu hugtök í lýsingartækni, staðla og leiðbeiningar við hönnun og úttekt á lýsingarkerfum.
  • Þekkir helstu gerðir ljósgjafa og eiginleika þeirra og getur notað þekkinguna til að meta gæði ljósgjafa, virkni lampa og lýsingarlausna.
  • Getur sett upp og greint kostnað á milli mismunandi lýsingarlausna á einfaldan hátt.
  • Hefur grunnþekkingu á gerð verklýsinga fyrir lýsingarbúnað. Þekkir helstu lausnir í ljósastýringum.
  • Þekkir þætti vistvænnar lýsingar í vottunarkerfi vistvænna bygginga BREEAM.
  • Hefur grunnþekkingu á lýsingarútreikningum í DIALux. Hefur þekkingu á ljósmælingum og notkun mismunandi ljósmæla.

Lýsing:

Á námskeiðinu verður farið yfir helstu viðfangsefni lýsingarfræðinnar, líkt og helstu lýsingarstaðla og leiðbeiningar sem notast er við hönnun og úttektir á lýsingarkerfum fyrir vinnustaði innan- og utanhúss, götulýsingu, íþróttavelli, neyðarlýsingu, lömpum, söfnum o.fl. Farið verður yfir notkunarmöguleika á ljósgjöfum, gæði þeirra, virkni og stýringar. Sérstök áhersla verður lögð á LED ljósgjafa og framtíðarljósgjafar og möguleikar þeirra skoðaðir. Lýsingarútreikningar í DIALux. Virðisútreikningur (e.efficiency calculator) og líftímaútreikningur (e.lifetime calculator) á lýsingar-lausnum. Ljósastýringar. Farið verður yfir þá þætti sem snúa að lýsingu þegar vistvænar byggingar eru hannaðar skv. BREEAM umhverfisstaðlinum og dæmi tekin af vottuðum íslenskum byggingum. Verklýsing, efnisval, úttektir á lýsingarkerfum og ljósmælingar.  

Lesefni: Skv. ábendingum kennara.

Kennsluaðferðir: Kennt í fjarnámi í 15 vikur, tvær staðarlotur. Fyrirlestrar, sýnidæmi, verkefni og úrlausnir í staðarlotum og gegnum rafrænt kennslukerfi. Námsefni á kennsluvef sem fylgt er eftir með reglulegum skilaverkefnum yfir önnina. Leiðbeiningar frá kennara á kennsluvef, námsefni á hljóðglærum, umræðuþræðir.

Námsmat: Verkefni unnin jafnt yfir önnina, þ.m.t. lokaverkefni, gilda samtals 100%.

Tungumál: Íslenska

RI PLC 2003 Iðntölvur og skjámyndir / Kælitækni

Einingar:                     6 ECTS
Ár:                               2. ár
Önn:                            Vorönn.
Stig námskeiðs:          Grunnnám – framhaldsnámskeið
Tegund námskeiðs:    Skyldunámskeið
Undanfarar:                Iðntölvustýringar (RI PLC 1003)
Skipulag:                            Kennt í fjarnámi í 15 vikur, tvær staðarlotur
Umsjónarkennari:      Jens Arnljótsson
Kennarar:                     Jón Brandsson (iðntölvur og skjámyndir) og Gísli Freyr Þorsteinsson (kælitækni).

Lærdómsviðmið: Stefnt er að því að í lok námskeiðs hafi nemendur:

  • haldgóða þekkingu á iðntölvum og búnaði þeim tengdum.
  • getu til að hanna og forrita smærri PLC stýringar.
  • getu til að velja iðntölvu og þekki helstu gerðir inn- og útgangseininga.
  • grunnþekkingu á mismunandi samskiptamöguleikum iðntölva.
  • grunnþekkingu á hönnun og uppsetningu snertiskjáa / skjámyndakerfa og notkunarmöguleikum þeirra.
  • þekkingu á virkni algengra kælikerfa og geti hannað og forritað stýringar á þeim.

Lýsing: Modicon M340 iðntölvur frá Schneider Electric og forritun á þeim með Unity Pro. Siemens S7-1200 iðntölvur og forritun á þeim með SIMATIC STEP 7 Professional (TIA Portal). Siemens KTP700 Basic snertiskjáir og tenging á þeim bæði við Modicon M340 og Siemens S7-1200 iðntölvur. Farið verður í Ladder-, FBD-. SFC forritun ásamt PI reglun. Kynning á kælitækni og verkefni/próf tengt kælitækni sem gildir hluta af lokaeinkunn.                              

Lesefni: Efni frá kennara.

Kennsluaðferðir: Kennt í fjarnámi í 15 vikur, tvær staðarlotur. Fyrirlestrar, sýnidæmi, verkefni og úrlausnir í staðarlotum og gegnum rafrænt kennslukerfi. Námsefni á kennsluvef sem fylgt er eftir með reglulegum skilaverkefnum yfir önnina. Leiðbeiningar frá kennara á kennsluvef, námsefni á hljóðglærum, umræðuþræðir. Viðtalstímar með kennara.

Námsmat: Skilaverkefni í iðntölvum gilda 35% og verkefni/próf í kælitækni gilda 5% af lokaeinkunn námskeiðsins. Í seinni staðarlotunni verður verkleg kennsla í kælitækni og er skyldumæting í þann hluta staðarlotunnar.  Lokapróf í iðntölvum gildir 60% af lokaeinkunn og verður í formi verkefnis sem lagt verður fyrir á vefnum með 48 klst. skilafrest. Nemandi verður að ná lokaprófinu áður en tekið er tillit til annarra einkunna.

Tungumál: Íslenska

RI RLH 1003 Raflagnahönnun

Einingar:                     6 ECTS
Ár:                               2. ár
Önn:                            Vorönn
Stig námskeiðs:          Grunnnám - framhaldsnámskeið
Tegund námskeiðs:    Skyldunámskeið
Undanfarar:                Lýsingartækni og reglugerð (RI LÝR 1003)
Skipulag:                            Kennt í fjarnámi í 15 vikur, tvær staðarlotur
Umsjónarkennari:      Guðmundur Kristjánsson
Kennari:   Þórður Þorsteinsson. 

LærdómsviðmiðStefnt er að því að nemandi nái tökum á hönnun á helstu raf- og sérkerfum og geti beitt til þess viðeigandi hugbúnaði.

Lýsing: Raflagnahönnun á stórum og smáum verkefnum, merkjakerfi, efnisval, verðútreikningar, verklýsing og magnskráteiknivinna í tölvu, töfluteikning með hefðbundinni ljósastýringu Dali og KNX ásamt útfærslu á ljósastýringum á raflagnateikningargrunn.

Lesefni: Skv. ábendingum kennara.

Kennsluaðferðir: Kennt í fjarnámi í 15 vikur, tvær staðarlotur. Fyrirlestrar, sýnidæmi, verkefni og úrlausnir í staðarlotum og gegnum rafrænt kennslukerfi. Námsefni á kennsluvef sem fylgt er eftir með reglulegum skilaverkefnum yfir önnina. Leiðbeiningar frá kennara á kennsluvef, námsefni á hljóðglærum, umræðuþræðir. Regluleg samskipti milli kennara og nemenda fyrir rýni og ráðleggingar á verkefnum.

Námsmat: Verkefni, þ.m.t. lokaverkefni, gilda 100%.

Tungumál: Íslenska

 5. önn - haust   12 ECTS

6. önn - vor   12 ECTS

RI REK 1003 Reglunar- og kraftrafeindatækni

Einingar:                     6 ECTS
Ár:                               3. ár
Önn:                            Haustönn
Stig námskeiðs:         Grunnnám - framhaldsnámskeið
Tegund námskeiðs:   Skyldunámskeið
Undanfarar:                Rafmagnsfræði (RI RAF1003)
Skipulag:                     Kennt í fjarnámi í 15 vikur, tvær staðarlotur
Umsjónarkennari:      Guðmundur Kristjánsson
Kennari:                      Guðmundur Kristjánsson

Lærdómsviðmið: Í lok námskeiðsins eiga nemendur að:

  • Vita hvernig snúningsvægi og hraði skammhlaupsmótors er háð tíðni rafmagnsins.
  • Vita hvernig raforku er stýrt, bæði sem jafnspennu- og riðspennurafmagn án teljandi afltapa.
  • Skilja hvers vegna launafl á ac hliðinni breytist með aflstýringunni.
  •  Geta reiknað straum af ac neti eftir afli á stýrða álaginu.
  • Gera sér grein fyrir helstu eiginleikum reglunar, bæði án og með afturverkun.
  • Þekkja grundvöll hlutfalls- (P), heildunar- (I) og afleiðu (D) reglunar og hvernig hver þáttur er stilltur til að fá sem bestu svörun í heildarregluninni (PID).

Lýsing: Kraftrafeindatækni skýrir hvers vegna æskilegt er að nota tíðnibreyta til að ræsa og stjórna hraða ac‑mótora. Hvernig spennu er breytt með hálfleiðararásum án mikilla tapa og hvaða þættir það eru sem hafa mest áhrif á töpin. Farið er í það hvernig fengin er breytileg dc spenna úr ac rafmagni og hvernig spennunni er stjórnað og hvernig launafl af ac netinu breytist. Farið er í það hvernig jafnspennu er svo breytt í riðspennu með breytilegri tíðni, bæði eins fasa‑ og þriggja fasa rafmagn.

Reglunarfræði skýrir hvernig innmerki er notað til að stjórna útmerki. Bæði án afturverkunar og svo með afturverkun þar sem útmerkið hefur áhrif á reglunina. Farið er í það hvernig Laplace vörpun breytir diffurjöfnum í algebrujöfnu. Farið er villugildi og hvernig stýring á útmerki er háð fastri margföldun á villumerki (P), hvernig villumerkið er heildað og það notað til að stýra útmerki (I) og hvernig breytinghraði (afleiða) á villumerkinu hefur áhrif á útmerkið (D). Farið er í það hvernig hafa má áhrif á viðbragðstíma rásarinnar með því að velja mismunandi reglun (PID) og notkun á Laplace vörpun til þess.

Lesefni:  Theodore Wilde, Electrical Machines, Drives, and Power Systems. Bolton, Control Systems. Harbor, Feedback Control Systems.

Kennsluaðferðir: Kennt í fjarnámi í 15 vikur, tvær staðarlotur. Fyrirlestrar, í pdf skrám,  sýnidæmi, verkefni og úrlausnir í staðarlotum og gegnum rafrænt kennslukerfi. Námsefni á kennsluvef sem fylgt er eftir með reglulegum skilaverkefnum yfir önnina. Leiðbeiningar frá kennara á kennsluvef, námsefni í  umræðuþræðir í kennslukerfi og skype-fundum.

Námsmat:  3 klst. skriflegt próf gildir 100%. Í seinni staðarlotu er skyndipróf og frammistaða í því gildir 20% í lokaeinkunn ef hún verður nemenda til hækkunar og hann hafi staðist lokaprófið.

Tungumál: Íslenska

 AI LOG 1003 Lögfræði

Einingar:                     6 ECTS
Ár:                               3. ár
Önn:                            Haustönn
Stig námskeiðs:          Grunnnám - grunnnámskeið
Tegund námskeiðs:    Skyldunámskeið
Undanfarar:                Engir
Skipulag:                     Kennt í fjarnámi í 15 vikur, tvær staðarlotur
Umsjónarkennari:      Jens Arnljótsson
Kennari:                      Bjarki Þór Sveinsson og Áslaug Benediktsdóttir. 

Lærdómsviðmið: Stefnt er að því að nemendur öðlist:
Þekkingu á:

  • undirstöðum íslensks stjórnkerfis og fái innsýn í lög og reglur sem viðskiptalífið grundvallast á.
  • réttindi og skyldur þeirra sem standa að atvinnurekstri.
  • helstu reglum verktaka- og útboðsréttar, vinnuréttar sem og almenns kauparéttar.
  • fasteignakaupum.

Leikni og hæfni í:

  • að leysa úr einfaldari ágreiningsefnum.
  • að koma auga á mögulegan ágreining.
  • gerð og uppsetningu kröfugerðar.
  • bréfaskriftum.

Lýsing: Í námskeiðinu verður farið yfir helstu viðfangsefni lögfræðinnar. Farið verður í réttarheimildir og grundvallarreglur í íslensku stjórnkerfi, réttarfar o.fl. Samningar og samningagerð á sviði fjármunaréttar. Lausafjárkaup. Fasteignakaup. Fjármögnunarleiga. Kröfuréttindi. Viðskiptabréf. Ábyrgðir. Veð. Stofnun og rekstrarform fyrirtækja. Verksamningar. Vinnusamningar. Samkeppnisréttur. Helstu alþjóðasamningar.

Lesefni: Sigríður Logadóttir, Lög á bók – Yfirlitsrit um lögfræði.

Kennsluaðferðir: Kennt í fjarnámi í 15 vikur, tvær staðarlotur. Fyrirlestrar, sýnidæmi, verkefni og úrlausnir í staðarlotum og gegnum rafrænt kennslukerfi. Námsefni á kennsluvef sem fylgt er eftir með reglulegum skilaverkefnum yfir önnina. Leiðbeiningar frá kennara á kennsluvef, námsefni á hljóðglærum, umræðuþræðir.

Námsmat: Lokapróf gildir 70% og 3 verkefni gilda 10% hvert.

Tungumál: Íslenska

RI LOK 1006 Lokaverkefni* 

Einingar:                     12 ECTS
Ár:                               3. ár
Önn:                            Vorönn / Haustönn
Stig námskeiðs:          Grunnnám – framhaldsnámskeið
Tegund námskeiðs:    Skyldunámskeið
Undanfarar:                66 ECTS einingar í rafiðnfræði, þ.e. nemandi má stunda nám í mest 2 fögum (12 ECTS) samhliða lokaverkefni.  Hægt er að vinna lokaverkefni á haust- eða vorönn
Skipulag:                     Kennt í fjarnámi í 15 vikur. Fundir með leiðbeinendum/ umsjónarkennara, sjá Reglur um lokaverkefni í iðnfræði
Umsjónarkennari:      Guðmundur Kristjánsson
Kennari:                      Baldur Þorgilsson, Guðmundur Kristjánsson og leiðbeinendur úr atvinnulífinu.

Lærdómsviðmið:  Stefnt er að því að nemendur:

  • geti beitt aðferðum iðnfræðinnar við lausn verkefna á sviði rafmagnshönnunar.
  • geti sinnt eftirlitsstörfum með framkvæmdum á rafmagssviði.
  • læri að tileinka sér sjálfstæð vinnubrögð við úrlausn raunhæfra verkefna á rafmagnssviði.
  • fái heildarsýn yfir fagið með samþættingu námsgreina þar sem þeir beita þekkingu úr öllum greinum rafiðnfræðináms.
  • geti kynnt niðurstöður verkefnisins á skýran og greinagóðan hátt, bæði skriflega og munnlega.

Lýsing:  Nemandi beitir þekkingu sem hann hefur öðlast í náminu til að leysa raunhæft verkefni valið úr raftæknisviði íslensks athafnalífs. Áhersla er lögð á sjálfstæð vinnubrögð, skipuleg vinnubrögð við gagnasöfnun, skilgreiningu vandamála, lausnaleit, úrvinnslu, skýrslugerð og teikningu. Lokaverkefni í rafiðnfræði er að öðru jöfnu unnið í tveggja manna hópum. Nemandi þarf að hafa lokið 66 ECTS einingum í byggingariðnfræði til að geta skráð sig í lokaverkefni, þ.e. nemandi má stunda nám í mest 2 fögum (12 ECTS) samhliða lokaverkefni.  Hægt er að vinna lokaverkefni á haust- eða vorönn.

Lesefni: Í samráði við kennara.

Kennsluaðferðir: Kennt í fjarnámi í 15 vikur. Nemendur vinna sjálfstætt undir leiðsögn kennara. Reglulegir fundir með umsjónarkennara og leiðbeinendum, sjá Reglur um lokaverkefni í iðnfræði.

Námsmat: Einkunn gefin fyrir úrlausn verkefnis og munnleg vörn.

Tungumál: Íslenska                


*Hægt er að vinna lokaverkefni á vorönn eða haustönn.

Viðmið

Í lærdómsviðmiðum má sjá hvaða þekkingu, leikni og hæfni nemendur eiga að búa yfir að námi loknu.

Inntökuskilyrði

Lágmarkskrafa til að hefja nám í iðnfræði er að hafa lokið bóklegu námi til sveinsprófs frá skilgreindri rafiðngrein. Til að útskrifast sem iðnfræðingur þarf að hafa lokið sveinsprófi.

Bóklegur undirbúningur  

Þau sem lokið hafa bóklegu námi til sveinsprófs geta þurft að taka allt að fjögur undirbúningsnámskeið í fjarnámi, samhliða iðnfræðináminu. Í boði eru grunnar í stærðfræði, eðlisfræði, íslensku og ensku og eru umsækjendum tilkynnt í svarbréfi hvort og þá hvaða grunna þeir þurfa að taka. Nauðsynlegt er að hafa lokið þeim grunnum sem hver og einn þarf að taka áður en farið er á 5. önn í náminu. Greitt er sérstaklega fyrir hvert og eitt námskeið, þau eru ekki innifalin í skólagjöldum.

Meistarar og stúdentar 

Þau sem lokið hafa meistaranámi í iðngrein, eða stúdentsprófi, uppfylla kröfur um bóklegan undirbúning og geta hafið nám í iðnfræði án frekari undirbúnings. 

Umsóknarfrestur

Tekið er við umsóknum fyrir haustönn frá 5. febrúar til 5. júní ár hvert.

Fylgiskjöl með umsókn

  • Námsferill
  • Sveinsbréf eða meistarabréf
  • Starfsferill, etv. meðmæli

Getum við aðstoðað?

Vinsamlega hafið samband ef spurningar vakna. 

Hjördís Lára Hreinsdóttir

Verkefnastjóri

hjordislh(hja)ru.is
Sími: 599 6480

Jens Arnljótsson

Lektor og fagstjóri iðnfræðináms

Netfang: jensarn(hja)ru.is
Sími: 599 6442


Umsóknarvefur



Gott að vita:






Þetta vefsvæði byggir á Eplica