Námið
Rannsóknir
HR

Innan Háskólans í Reykjavík blómstrar alþjóðlegt háskólasamfélag þar sem alþjóðleg viðmið eru nýtt í rannsóknum, kennslu og stjórnun. Starfað er markvisst með leiðandi erlendum háskólum og rannsóknarstofnunum og áhersla lögð á að þjálfa nemendur í alþjóðlegum samskiptum. 

Alþjóðadagurinn 2024

Hlutverk alþjóðasviðs HR er að hvetja og styðja við nemendur og starfsfólk sem vilja öðlast alþjóðlega reynslu í háskólanámi og starfi, bæði þau sem fara út sem og þau sem koma til Íslands til lengri eða skemmri tíma. Alþjóðasvið fer einnig yfir gögn alþjóðlegra (utan ESB) nemenda í fullu námi og veitir stuðning í umsóknarferlinu. 

Sviðið stuðlar að inngildingu og stuðningi við erlenda nemendur, m.a. með umsjón með mentor prógrammi HR. Alþjóðasvið er ráðgefandi aðili varðandi styrkmöguleika í alþjóðastarfi í kennslu og námi jafnframt því að vekja athygli á alþjóðlegum tækifærum og fjölmenningu í skólanum með viðburðum eins og alþjóðadegi HR og alþjóðlegri starfsmannaviku.  

Sviðið hefur umjón með gerð samninga við erlenda háskóla og leitast við að tryggja gæði, fjölbreytni og landfræðilega dreifingu samstarfsskóla í skiptinámi. 

Jafnframt er hlutverk alþjóðasviðs að tengja saman aðila sem hafa áhuga á samstarfi m.a. með virkri þátttöku á alþjóðavísu, í samstarfsnetum, tengslaráðstefnum og með móttöku gesta til HR. Auk ofangreinds kemur alþjóðasvið að stefnumarkandi alþjóðastarfi innan skólans þegar á þarf að halda og þá helst í formi framfaraverkefna innan HR.  

Háskólinn í Reykjavík tekur virkan þátt í Erasmus+ menntaáætlun Evrópusambandsins. Áætlunin styður við nám og starfsþróun nemenda og starfsfólks í Evrópu og eflir samstarf háskóla á milli landa. Alþjóðasvið HR hefur umsjón með KA1 verkefnum og sinnir því sem stórum hluta af sinni starfsemi.  Í gegnum Erasmus+ geta nemendur og starfsfólk farið á styrkjum til samstarfsskóla HR í styttri eða lengri dvalir.  

Nordplus áætlunin er menntaáætlun norrænu ráðherranefndarinnar. Markmið hennar er að stuðla að samstarfi og gæðum í menntun á Norðurlöndunum og í Eystrasaltslöndunum.  HR er aðili að nokkrum undiráætlunum Nordplus:  NOREK, NORTEK, NORDLYS OG NORDPLUSLaw. Í gegnum þessa áætlun geta nemendur sótt um styrki til að fara í sumarskóla eða stuttar dvalir til skóla sem eru aðilar að samstarfsnetunum.  

Alþjóðadagur í Sólinni

Gildi Alþjóðasviðs HR

Guðlaug Matthildur Jakobsdóttir
Forstöðumaður alþjóðaskrifstofu
Alexandra Ýr van Erven
verkefnastjóri skiptináms (INN)

Skiptinám

Vissir þú að?
Alþjóðleg reynsla eykur möguleika á vinnumarkaði. Sjá meira hér í alþjóðlegri könnun um áhrif námsdvalar erlendis á nemendur.

Til að lýsa skiptináminu mínu þyrfti ég stærri og betri orð en til eru, en ég skal gera mitt besta. Það var yndislegra en hægt er að ímynda sér, frábærara en allt frábært, lærdómsríkara en nokkur skóli og sorglegra en ég hefði trúað, því ég þurfti að lokum að koma heim

Vitnisburður skiptinema 2024

Upplýsingafundir um skiptinám eru haldnir á vegum Alþjóðaskrifstofu í byrjun hverrar annar. Þeir eru þeir auglýstir í tölvupósti til nemenda og á Canvas.

Að fara í námsdvöl erlendis er einstök reynsla og hefur margvísleg áhrif. Þar má nefna:

  • Aukna tungumála- og menningarfærni
  • Aukina hæfni til að aðlagast og takast á við nýjar og krefjandi aðstæður
  • Meiri sjálfsþekkingu
  • Tengslanet við fólk frá öllum heimshornum

Myndbönd

Sérúrræði í skiptinámi erlendis

Nemendur Háskólans í Reykjavík sem hafa hug á því að sækja um skiptináms- eða starfsþjálfunardvöl erlendis á vegum Erasmus+ geta sótt um viðbótarstyrk.

Í hvaða tilfellum á ég rétt á viðbótarstyrk?

  1. Inngildingarstyrkur sem föst upphæð 

Top-up to individual support for students and recent graduates with fewer opportunities 

 
Þeir nemendur sem uppfylla viðmiðin sem hafa verið sett af Landskrifstofu geta sótt um inngildingarstyrk sem fasta upphæð til viðbótar við dvalarstyrk. Í skiptinámi/starfsþjálfun er föst upphæð inngildingarstyrks 250 evrur á mánuði. Í styttri stúdentaskiptum er föst upphæð 100 evrur fyrir 5 – 14 daga og 150 evrur fyrir 15 – 30 daga. Tafla með styrkupphæðum á heimasíðu 

Nemandi þarf að tilheyra að lágmarki einum þessara hópa: 

  • Nemendur sem eru innflytjendur eða börn innflytjenda 
  • Nemendur með stöðu flóttafólks 
  • Nemendur sem glíma eða hafa glímt við alvarleg veikindi, langvarandi veikindi eða andlegar áskoranir 
  • Nemendur með líkamlega fötlun, þroskafrávik, sjón-/heyrnarskerðingu eða námshamlanir 
  • Nemendur með börn 

Styrkurinn margfaldast ekki þó að nemandi uppfylli fleiri en eitt viðmið. Ef stúdent uppfyllir ekki viðmiðin til þess að hljóta inngildingarstyrk sem fasta upphæð en getur sýnt fram á raunverulega þörf á auknu fjármagni vegna færri tækifæra er háskólum heimilt að veita inngildingarstyrk fyrir aukalegan kostnað vegna þátttöku í Erasmus+, sjá neðar.  

Undirrituð yfirlýsing 

Til þess að staðfesta að nemandi tilheyri einum eða fleirum af ofangreindum hópum nemenda, þarf viðkomandi að undirrita yfirlýsingu þess efnis. Háskólanum er heimilt að óska eftir viðbótargögnum til staðfestingar, þó ekki kvittunum. 

  1. Inngildingarstyrkur (raunkostnaður) fyrir aukalegan kostnað  

Inclusion support for participants 
 
Inngildingarstyrkir byggðir á raunkostnaði eru fyrst og fremst hugsaðir fyrir þá sem með þátttöku myndu mæta aukalegum kostnaði umfram aðra vegna fötlunar eða veikinda, hvort sem þau eru líkamleg eða andleg. 

Til þess að sækja um þennan styrk þarf að óska eftir honum með tölvupósti til alþjóðaskrifstofu heimaskóla, eftir að búið er að senda inn umsókn um skiptinám/starfsþjálfun. Næst fylla heimaskóli/alþjóðaskrifstofa og umsækjandi út eyðublað um viðbótarstyrk í sameiningu og senda undirritað til Landskrifstofu.

Ef stúdent uppfyllir viðmiðin fyrir inngildingarstyrk sem fasta upphæð og getur þar að auki sýnt fram á raunverulega þörf á auknu fjármagni er hægt að veita viðkomandi bæði inngildingarstyrk sem fasta upphæð og inngildingarstyrk byggðan á raunkostnaði. Í þeim tilvikum er mikilvægt að borga ekki tvisvar fyrir það sama, heldur líta á föstu upphæðina sem aukafjármögnun fyrir grunn ferða- og uppihaldskostnað og raunkostnaðinn til að fjármagna það sem þarf að borga aukalega (svo sem auka sæti eða farmiða fyrir fylgdarmanneskju). 

Hverjir komast í skiptinám?

Nemendur í grunnnámi hafa að öllu jöfnu möguleika á að fara í skiptinám eftir að þeir hafa lokið 60 ECTS einingum. Það er misjafnt milli deilda hve háar einkunnir nemendur þurfa að hafa til að geta farið. Sjá nánar hér að neðan. Oft er auðveldara að finna námskeið við hæfi í gestaskóla á fjórðu eða fimmtu önn í náminu.

Athugið að ef sótt er um að komast í skiptinám til Bandaríkjanna og Kanada þá þarf í flestum tilfellum að taka TOEFL stöðupróf í ensku.

Starfsþjálfun

Starfsþjálfun meðan á námi stendur er sífellt að verða mikilvægari þáttur í námsferli hvers einstaklings. Nemendur verða í flestum tilfellum að útvega sér starfsþjálfun sjálfir. Gott er að ráðfæra sig við kennara eða annan innan deildar varðandi val á starfsþjálfun.

Hægt er að sækja um Erasmus styrk í starfsþjálfun til Evrópu í 2-12 mánuði. Stúdentar á öllum námsstigum mega sækja um. Nemendur sem hafa áður farið í Erasmus skiptinám mega sækja um styrki til starfsþjálfunar. Skilyrði er að starfsþjálfunin tengist námi umsækjanda og verði metið sem hluti af námi hans við HR.

Þegar nemandi er kominn með hugmynd að eða vilyrði fyrir stöðu þá þarf að hafa samband við alþjóðaskrifstofu til þess að fá upplýsingar um framvindu styrkumsóknar.

Eftirfarandi reglur gilda um styrkveitingar til starfsþjálfunar frá HR:

  • Fyrir launaða starfsþjálfun fær nemandi uppihaldsstyrk til þriggja mánaða ásamt ferðastyrk
  • Fyrir ólaunaða starfsþjálfun fær nemandi uppihaldsstyrk fyrir dvöl í 2-12 mánuði ásamt ferðastyrk

Hægt er að sækja um styrk til starfsþjálfunar utan Evrópu en ekki er alltaf öruggt að fjármagn sé til fyrir slíku. Hámarksstyrkur til slíkrar dvalar er 3 mánuðir auk ferðastyrks.

Umsóknarferlið:
  1. Sækja um styrk og gott að hafa þá þegar fundið starfsþjálfun en ekki nauðsynlegt. Upplýsingar veitir alþjóðasvið HR á outgoing@ru.is
  2. Finna starfsþjálfun
  3. Gera starfsþjálfunarsamning – Training agreement (undirritað af nemanda, HR og vinnuveitanda)
  4. Skila starfsþjálfunarsamningi til alþjóðaskrifstofu HR
  5. Undirrita greiðslusamning sem nemandi fær sendan, 70% styrks greiðist við brottför og 30% við heimkomu eftir að staðfesting hefur borist frá vinnuveitanda.
  6. Senda inn milliskýrslu þegar starfsþjálfunin er hálfnuð, undirritað af vinnuveitanda.
  7. Láta vinnuveitanda senda staðfestingu og mat á störfum starfsnema til alþjóðaskrifstofu við lok dvalar
  8. Skila rafrænni lokaskýrslu

Hægt er að sækja um styrki fyrir eftirfarandi:

  • Starfsþjálfun sem hluta af námi. Skilyrði er að starfsþjálfunin tengist námi umsækjanda og verði metið til eininga sem hluti af námi hans við HR
  • Starfsþjálfun eftir útskrift. Í þeim tilfellum þarf að sækja um styrk fyrir brautskráningu. ekki er nauðsynlegt að hafa þegar fundið starfsþjálfun. Nýta þarf styrkinn innan 12 mánaða frá útskriftardegi
Til þess að finna starfsnám þá eru til vefsíður sem hægt er að styðjast við:

Það sem ber að hafa í huga:

  1. Ef um einyrkja eða mjög lítil fyrirtæki er að ræða þá er gott að reyna að finna upplýsingar um viðkomandi fyrirtæki eða einstakling áður en farið er út í frekari aðgerðir.
  2. Gott að reyna að finna umsagnir um umboðsaðila á netinu áður en ákveðið er að fara í gegnum þá.

Erasmus+

Erasmus+ er menntaáætlun Evrópusambandsins og er ætlað að stuðla að auknu samstarfi meðal háskóla í Evrópu og styðja við mótun á samevrópsku háskólasamfélagi. Háskólinn í Reykjavík hefur verið virkur þátttakandi í fjölbreyttum verkefnum Erasmus áætlunarinnar um árabil. 

Nemendur Háskólans í Reykjavík sem hafa hug á því að sækja um skiptináms- eða starfsþjálfunardvöl erlendis á vegum Erasmus+ geta sótt um viðbótarstyrk vegna fötlunar. 

Jöfn tækifæri til náms - Viðbótastyrkir

Frá samningsárinu 2021, við upphaf nýrrar Erasmus+ áætlunar, hafa nemendur og nýútskrifaðir með börn getað sótt um inngildingarstyrk sem fasta upphæð (250 € á mánuði fyrir lengri dvalir) til viðbótar við hefðbundinn dvalarstyrk. Viðmiðunum fyrir fasta upphæð inngildingarstyrk var síðan fjölgað og frá skólaárinu 2023-24 verða þau eftirfarandi:

  • Nemendur sem eru innflytjendur eða börn innflytjenda*
  • Nemendur með stöðu flóttafólks
  • Nemendur sem glíma eða hafa glímt við alvarleg veikindi, langvarandi veikindi eða andlegar áskoranir
  • Nemendur með líkamlega fötlun, þroskafrávik, sjón-/heyrnarskerðingu eða námshamlanir
  • Nemendur með börn undir 18 ára

Innflytjandi er einstaklingur sem er fæddur erlendis og á foreldra, afa og ömmur sem öll eru fædd erlendis. Innflytjendur af annarri kynslóð eru einstaklingar sem fæddir eru á Íslandi og eiga foreldra sem báðir eru innflytjendur.

Dæmi um kostnað sem fellur undir viðbótarstyrk:
  • Laun aðstoðarmanna
  • Ferðakostnaður aðstoðarmanna
  • Sérstakt húsnæði til að mæta þörfum nemandans
  • Kostnaður vegna ferðaþjónustu
  • Flutningskostnaður tækjabúnaðar

Nemandi þarf að skila umsóknareyðublaði, kostnaðaráætlun og vottorði sem staðfestir fötlunina til alþjóðaskrifstofu HR.

Alþjóðasvið sækir um styrkinn til Landskrifstofu Menntaáætlunar ESB fyrir hönd nemanda. Mikilvægt er að nemandi kynni sér aðbúnað í móttökuskóla/stofnun eins vel og kostur er og upplýsi móttökuaðila fyrr en síðar um fötlun sína svo hægt sé tryggja góða þjónustu við upphaf náms eða þjálfunar. 

Upplýsingar um mál sem varða aðgengi og þjónustu háskóla við nemendur með fötlun má finna á eftirfarandi síðum:
Nánari upplýsingar um viðbótarstyrk: 

Sumarnámskeið

Hægt er að taka sumarnámskeið hjá samstarfsskólum HR. Upplýsingar um þá eru á heimasíðum skólanna og oft eru áhugaverð og spennandi pláss auglýst sérstaklega.

Í sérstökum tilfellum fella samstarfsskólar niður skólagjöld fyrir nemendur frá HR. Í sumum tilfellum er hægt að fá Nordplus styrki til þess að fara í sumarskóla til Norðurlandanna. Frekari upplýsingar má fá hjá alþjóðaskrifstofu.

Sumarskóli í Stanford 2025 

Nemendum Háskólans í Reykjavík stendur til boða að sækja um átta vikna sumarnám International Honors Program (IHP) við Stanford háskóla í Kaliforníu sem haldið verður frá 21. júní til 17. ágúst 2025. 

Stanford og HR undirrituðu samning um sumarnám í lok árs 2024 og því geta HR nemendur farið í  sumarskóla til Stanford og kynnst einstöku háskóla- og vísindasamfélagi í einum virtasta háskóla heims. Sumarnám við Stanford getur nýst þeim vel sem stefna á framhaldsnám í Bandaríkjunum. 

Allir nemendur HR í grunn- og meistaranámi sem hafa lokið a.m.k. einu námsári (60 ECTS) áður en sumarnámið hefst með meðaleinkunn að lágmarki 7,5 geta sótt um.   

Í boði er mikið úrval námskeiða. Nemendur þurfa að skrá sig í fullt nám sem jafngildir 8 Stanford einingum (12 ECTS) og geta sótt um að fá námskeið metin inn í námsferil sinn í HR.  Til þess þurfa þeir að hafa samband við sína deild áður en sumarnámið byrjar.  

Nemendur HR fá 20% afslátt af skólagjöldum. Með afslætti nema þá skólagjöldin 9.261 USD fyrir nemendur í grunnnámi, en 10.592 USD fyrir meistaranema.  Auk þess greiða nemendur samtals um 5.992 USD fyrir húsnæði á stúdentagörðum,  fæði og ýmsan annan kostnað.  

Ef viðkomandi er ekki með fullnægjandi tryggingar verður viðkomandi að kaupa tryggingu í gegnum IHP prógrammið sem kostar 1.905 USD.  

Umsóknarferlið er tvíþætt. Nemendur senda fyrst umsókn til alþjóðaskrifstofu HR. Valnefnd metur umsækjendur á grundvelli námsárangurs, meðmæla, framtíðaráforma og viðtals og velur hóp nemenda sem tilnefndir verða til Stanford. Tilnefndir nemendur senda síðan inn umsókn með námskeiðsvali til Stanford. 

Sótt er um rafrænt og fylgigögn á ensku send á alþjóðaskrifstofu HR á netfangið outgoing@ru.is   

Umsóknarfrestur er 15 febrúar 2025.  Ekki er tekið við umsóknum eftir þann tíma.  

Fylgigögn á ensku sem senda skal á outgoing@ru.is þegar umsóknarform hefur verið fyllt út eru eftifarandi:  

  1. Kynningarbréf (e. personal statement), hámark 600 orð 
  2. Staðfest námsferilsyfirlit ásamt árangursröðun (e. ranking) – fæst hjá nemendaskrá 
  3. Tvenn meðmæli, a.m.k. önnur frá kennara við deild umsækjanda - Meðmæli sendist beint á alþjóðaskrifstofu frá viðkomandi meðmælanda.  

Frekari upplýsingar má nálgast á alþjóðaskrifstofu hjá Hrafnhildi Ylfu Magnúsardóttur, verkefnastjóra skiptináms á outgoing@ru.is   

Nordplus

Nordplus fyrir háskólastigið hefur það m.a. að markmiði að styrkja samstarfsnet háskóla á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum.

Nordplus veitir ýmis konar styrki og innan NORDPLUS eru ýmis undirnet fyrir sérstök svið. HR er aðili að eftirfarandi undirnetum:

  • NOREK fyrir viðskiptadeild
  • NORDTEK fyrir tækni- og verkfræðideild
  • NORDPLUS LAW fyrir lagadeild
  • NORDLYS  fyrir allar deildir

Styrkur til skiptináms eða starfsnáms innan NORDPLUS:  Dvöl í 1 - 12 mánuði. 600 - 660€ í ferðastyrk + 200 – 280 € í staðaruppbót á mánuði.

Express styrkir: Styrkir til styttri námsdvalar t.d. vegna þátttöku í námskeiði. Lágmarksdvalartími er 1 vika og hámarksdvalartími er einn mánuður. 660€ í ferðastyrk + 70 € í staðaruppbót á viku. Þessir styrkir henta einkar vel fyrir sumarskóla á Norðurlöndunum. Doktorsnemar geta ekki sótt um NordPlus styrki.

Umsóknir um styrki innan NORDPLUS fara í gegnum alþjóðaskrifstofu.

Alþjóðastarf í HR - Vertu mentor

Heimurinn kemur til þín

HR er alþjóðlegur háskóli og hópur erlendra nemenda sem dvelja þar við nám í lengri eða skemmri tíma fer stækkandi. Það er mikilvægt að bjóða þessa nemendur velkomna og sjá til þess að þeir fái innsýn í menningu og félagslíf á Íslandi og í HR. Ef þú hefur áhuga á að vera mentor eða taka þá í alþjóðastarfi á einhvern hátt hafðu þá samband við starfsmenn alþjóðaskrifstofu. Auglýst er eftir mentorum tvisvar á ári í tölvupósti og á Canvas.

Af hverju að vera mentor?
Fyrst og fremst er mikilvægt að taka vel á móti nemendum sem hafa ekkert bakland hér á Íslandi og aðstoða þá við að fóta sig fyrstu vikurnar.

  • Að vera mentor er frábært tækifæri til að eignast vini alls staðar að úr heiminum, efla tengslanetið sitt og samskiptarfærni
  • Fyrir þá sem hyggja á skiptinám þá er þetta góður undirbúningur
  • Alþjóðasvið gefur þeim sem sinna verkefninu af staðfestu og alúð góð meðmæli

Nemendur HR sem hafa þegar farið í skiptinám eru gjarnan mjög öflugir mentorar sem vita hvað felst í þeim áskorunum sem skiptinám til annars lands felur í sér.

Hvað er að vera mentor?

Tveir mentorar vinna saman með nemendahóp sem er 15-25 manns. Þeir þurfa að bjóða nemendur velkomna, aðstoða við nýnemadaga og skipuleggja ferðir eða viðburði með hópnum.

Mentorar skuldbinda sig til að gera eftirfarandi:

  • Mæta á skipulagsfund sem er 1-2 klst
  • Taka að fullu þátt í nýnemadögum (Orientation) í ágúst og janúar
  • Skipuleggja að lágmarki fimm viðburði eða ferðir með hópnum, aðallega fyrsta mánuðinn, t.d. sundferðir, fjallgöngur o.s.frv.
  • Halda úti Facebook-grúppu þar sem skipst er á upplýsingum
  • Vera tilbúin til að veita aðstoð og gefa upplýsingar fyrsta mánuðinn af dvöl hópsins
Já, ég vil vera mentor!

Á hverri önn er sendur út tölvupóstur á nemendur þar sem óskað er eftir þátttöku í mentor samstarfinu. Ef nemendur óska eftir því að gerast mentorar þá skal hafa samband við Incoming@ru.is.

Hafa samband

Guðlaug Matthildur Jakobsdóttir
Forstöðumaður alþjóðasvið
Alexandra Ýr van Ervin
Verkefnastjóri - Nemendur inn
Hrafnhildur Ylfa Magnúsardóttir
Verkefnastjóri - Nemendur út
Vissir þú að?

ESN - Erasmus Student Network
Nemendur HR og HÍ vinna saman í félagsstarfi með erlendum skiptinemum undir merkjum ESN og skipuleggja marga viðburði og ferðalög yfir skólaárið. ESN Iceland er nemendafélag fyrir skiptinema og alþjóðlega nemendur á Íslandi. ESN eru alþjóðleg nemendasamtök í 37 löndum og í yfir 500 háskólum sem þýðir að stjórnarmeðlimir hafa mikla möguleika á að taka þátt í ráðstefnum og fundum erlendis. https://esn.org/

Fara efst